141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[22:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann að vera rökrétt og kann að vera ástæðan fyrir því að fleiri háhitavirkjanir eru í biðflokki vegna skorts á þekkingu og rannsóknum. Ég undrast hins vegar, og um leið gagnrýni ég verkefnisstjórnina að nokkru leyti, hversu margar vatnsaflsvirkjanir eru þá í biðflokknum þar sem við vitum meira um þær. Ég hefði kosið að menn skoðuðu í það minnsta að vera með biðflokk til nýtingar, eins og hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson stakk upp á, ég held að hann hafi orðað það þannig, þegar tiltölulega litlar rannsóknir vantar upp á til að hægt sé að meta kostinn endanlega. Þar mundu menn sjá vel hvað þyrfti að gera, en kosturinn væri ekki í meginbiðflokknum.

Ég óttast það, virðulegi forseti, að biðflokkurinn muni á endanum verða einhvers konar geymsluflokkur vegna þess að það sé alltaf svo margt sem menn muni finna og tína til sem eftir eigi að rannsaka. Þess vegna (Forseti hringir.) hef ég nú verið að potast í þessi atriði í nefndarálitinu af því að mér finnst þau benda í þá átt. En ég tek undir með hv. þingmanni að það eru (Forseti hringir.) álitamál í jarðhitanum, ég er sammála því.