141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:13]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innleggið og innihaldsríka ræðu. Hún lýsti því ágætlega hvernig unnið hefur verið á undangengnum árum við að móta nýtingu og vernd á orkuauðlindum og náttúru landsins en 1. áfanginn var árið 1999, þ.e. þá varð fyrsta verkefnisstjórnin til.

Í ljósi þess að um 13–14 ára skeið hafa helstu fræðimenn þjóðarinnar unnið að þessu verkefni fannst mér hv. þingmaður ýja að því að hún hefði unað niðurstöðum þessara sérfræðinga ef hæstv. ráðherrar hefðu ekki farið að kukla við þetta mál á síðustu metrum með því að taka þessa sex virkjunarkosti úr nýtingu yfir í biðflokk. Það væri fróðlegt að heyra hv. þingmann fara aðeins betur yfir það hvort hún og félagar hennar í Sjálfstæðisflokknum hefðu þá verið reiðubúnir að fallast á niðurstöður þessara sérfræðinga.

Ég get talað fyrir mig, ég hefði verið tilbúinn að sættast á þær, sérstaklega með það að markmiði að reyna að ná víðtækari sátt um þennan mikilvæga málaflokk. Það virðist vera þannig með þessa blessuðu ríkisstjórn að ef góður ófriður er í boði er því boði tekið fegins hendi þannig að það væri mikilvægt að heyra sjónarmið hv. þingmanns.

Síðan er annar kapítuli og ég mun ræða hann aðeins á eftir, hvað það þýðir að færa þessa virkjunarkosti úr nýtingarflokki yfir í biðflokk hvað varðar atvinnuuppbyggingu, til að mynda í kjördæmi hv. þingmanns. Við getum tekið sem dæmi að á Reykjanesinu er mesta atvinnuleysið á landinu og fólk kallar þar eftir uppbyggingu í atvinnumálum. Það er ljóst að ef þetta verður að veruleika mun það ekki flýta fyrir þeirri þróun.