141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:15]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég hefði sætt mig við niðurstöðuna enda sat ég sjálf í verkefnisstjórninni og ég hef mikla trú á þessari aðferðafræði, eins og kom fram í máli mínu. Ég hef trú á því að það sé rétt að leggja málið í þann farveg að smíða faglega aðferðafræði til að reyna að fá fram þessa röðun, hvar er best að virkja og hvar er best að vernda, og reyna þannig að ná einhverri sátt í þennan málaflokk. Orkan okkar er ein af okkar helstu auðlindum og við lifum á landinu okkar. En við erum öll sammála um að við viljum ekki ganga of nærri okkar fallega landi.

Þess vegna hafa þingmenn og þungavigtarmenn úr öllum flokkum og alls staðar í samfélaginu talað fyrir því að þessi aðferðafræði sé rétt og það sé gott að þetta mál hafi farið í þann farveg að reyna að ná einhverri sátt og lendingu. En ég hef verið að segja að við þurfum þá að klára það allt til enda, við verðum þá að fara að tillögum verkefnisstjórnarinnar og fylgja röðun hennar en ekki hleypa málinu í það að reyna að búa til eitthvert samkomulag milli stjórnarflokkanna sem þýðir að ríkisstjórn einhvers tíma lifi lengur eða skemur.

Þetta á ekki að vera tæki sem vekur úlfúð, þá er þetta komið algjörlega í mótstöðu við sjálft sig vegna þess að við viljum ekki hafa þannig kerfi að þegar ný ríkisstjórn tekur við taki hún rammaáætlunina upp og umbylti henni. Það er versta niðurstaðan sem við getum fengið út úr þessu máli og þá er betur heima setið en af stað farið verði það niðurstaðan sem ég trúi enn að við ætlum ekki að láta gerast. Þingmenn úr flestum flokkum hafa sagt í þessari umræðu í dag að þeir trúi því að það sé ekki of seint að setjast niður og reyna að ná samkomulagi um þetta mál, (Forseti hringir.) að það fylgi þeim faglegu forsendum sem upphaflega var lagt af stað með.