141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:18]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er sorglegt að sjá í hvaða öngstræti þetta mál virðist vera komið. Eins og fram hefur komið í umræðunni var það undir forustu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sem þessi vinna fór af stað árið 1999. Það er alveg ljóst að með því að hringla svona í málinu núna er verið að setja þessa rammaáætlun í algjört uppnám.

Mér fannst hv. þingmaður lýsa því ágætlega í ræðu sinni áðan hvernig menn hefðu skilið þetta verkefni þegar lagt var af stað, að sú niðurstaða sem kæmi út úr þessu yrði trúlega hin endanlega niðurstaða vegna þess að það væri kannski ekki æskilegt að stjórnmálamenn færu að kukla við hana. Þá skil ég hv. þingmann rétt og held að ég sé henni sammála um að verði þessi þingsályktunartillaga knúin í gegn núna muni hún í raun ekki hafa mikla þýðingu eftir næstu kosningar því að þá sé ljóst að þeir flokkar sem komi að ríkisstjórn þá muni taka plaggið upp og endurraða kostunum að einhverju leyti, vonandi þá bara til samræmis við það sem sérfræðingar hafa lagt til. Það er búið að taka þetta mál úr þeim sáttafarvegi sem það hefur verið í á undanförnum árum og gera það að hápólitísku máli hér og í raun að einhverri skiptimynt milli stjórnarflokkanna þar sem menn hafa látið að því liggja að verði þessar breytingar ekki gerðar að kröfu Vinstri grænna sé stjórnarsamstarfið í hættu.

Fyrir það mun þá þessi málaflokkur líða og væntanlega atvinnuuppbygging, m.a. í kjördæmi hv. þingmanns, og það er miður.