141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:20]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Já, ég deili áhyggjum hv. þingmanns af því hvernig niðurstaða þessa máls muni hafa áhrif á framtíðina í þessum málaflokki. En ég er það bjartsýn að ég trúi því enn, þrátt fyrir að við séum að ræða þetta mál núna, og það er kannski ekki mikill tími til stefnu, að menn eigi eftir að setjast niður saman og laga þetta. Ég trúi því ekki að menn ætli að fórna allri þessari vinnu sem hér liggur að baki fyrir það að geta hangið saman í ríkisstjórn nokkrum vikum lengur eða skemur. Við eigum að vera með þetta mál fyrir ofan slíkt plan, það er sannfæring mín. Og ég trúi því enn að menn eigi eftir að gera hlé á þessari umræðu, setjast saman yfir þetta mál og reyna að beina því aftur í réttan farveg.

Hins vegar höfum við sjálfstæðismenn lagt fram þá tillögu, eins og ég fór yfir í ræðu minni, með hvaða hætti væri hægt að laga málið, með því einfaldlega að fá verkefnisstjórnina til að flokka. Sú tillaga var lögð fram hér fyrir nokkrum vikum og auðvitað er tíminn búinn að líða síðan þá vegna þess að sú tillaga hefur ekki fengist samþykkt í þinginu, því miður. En enn er hægt að grípa inn í og laga þetta mál.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn voru í ríkisstjórn þegar þetta mál var sett af stað. Síðan eru liðin mörg ár og eftir það vorum við sjálfstæðismenn með Samfylkingunni í ríkisstjórn, eins og sumir muna, og enn síðar tóku Vinstri grænir við því að vera í ríkisstjórn með Samfylkingunni (Gripið fram í: Of seint.) og eru í ríkisstjórn þegar þetta mál (Gripið fram í.) klárast í verkefnisstjórninni. Allir flokkar hafa komið að þessu máli og hafa staðið að því að þessi viðamikla vinna átti sér stað. Ég trúi ekki öðru en að menn ætli sér að klára málið á faglegum forsendum allt til enda. Ég skora að minnsta kosti á þingmenn að gera það.