141. löggjafarþing — 50. fundur,  11. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[23:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Það er hálfleiðinlegt að ræða þetta mál fram á nótt en það verður að hafa sinn gang því að það er mjög mikilvægt. Við erum að tala um þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

Eins og fram hefur komið í umræðunni er um gamalt mál að ræða og má rekja sögu þess allt aftur til síðustu aldar. Fyrsti starfshópurinn sem fjallaði um þetta mikilvæga mál var settur á fót árið 1999, en þá var ríkisstjórn í landinu sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn skipuðu. Eins og alþjóð veit hafa verið ríkisstjórnarskipti í kjölfar þess og má segja að allir stóru stjórnmálaflokkarnir hér á landi hafi setið í ríkisstjórn meðan á þessari merkilegu vinnu hefur staðið. Þetta var heilmikil vinna þar sem farið var skipulega í samráði og með kynningu yfir hvernig við ætlum að móta þennan málaflokk til framtíðar litið. Eins og fram hefur komið hjá aðilum, m.a. þeim sem sátu í verkefnisstjórninni, þá var andinn ætíð sá að út úr þessari vinnu kæmi nokkurs konar salómonsdómur sem menn færu ekki að krukka mikið í, enda hafa helstu sérfræðingar þjóðarinnar á sviði umhverfismála og virkjunarmála og allt þar á milli komið að vinnunni.

Í tengslum við störf verkefnisstjórnarinnar var settur upp víðtækur samráðs- og ráðgjafarvettvangur þannig að mikil kynning hefur verið í samfélaginu á þessum hugmyndum og tillögum. Það er búið að halda fjölmarga fundi með stofnunum og hagsmunaaðilum og meðal annars hefur verið sett upp vefsetur og kynningarefni gefið út. Sú faglega vinna fór fram í fjórum hópum sem skipaðir voru sérfræðingum á viðkomandi sviðum. Ef ég fer yfir það þá fjallaði fyrsti hópurinn um náttúru- og menningarminjar, annar hópurinn fjallaði um útivist og hlunnindi, þriðji hópurinn fjallaði um þjóðhagsmál, atvinnulíf og byggðaþróun og fjórði hópurinn um nýtingu orkuauðlinda. Það hefur því farið fram heilmikil og vönduð vinna í þessum mikilvæga málaflokki. Svo ég tali fyrir mig og trúlega fyrir hönd margra annarra framsóknarmanna þá voru bundnar miklar væntingar og vonir við þetta starf. Sjálfur var ég eiginlega búinn að einsetja mér að fallast á þær niðurstöður sem kæmu frá sérfræðingahópnum, enda held ég að enginn þingflokkur geti náð einingu um það hvað eigi nákvæmlega að verja og hvað eigi að virkja. Sjónarmið og hagsmunir eru mismunandi eftir kjördæmum og fleira mætti nefna þannig að það er ágætisgrunnur að hafa þessar niðurstöður frá sérfræðingum.

Þegar þeirri vinnu lauk sem staðið hafði í 14 ár fór málið inn á borð ríkisstjórnarinnar og þá hófst ferli sem ég tel að sé ekki til eftirbreytni. Hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra settust á rökstóla. Í framhaldinu hófust samningaviðræður á milli tveggja stjórnmálaflokka, þ.e. Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar. Í þeim samningaviðræðum lá líf ríkisstjórnarinnar undir og að kröfu Vinstri grænna var farið að kukla í niðurstöður þessa mikla starfs okkar helstu sérfræðinga hvað þetta mikla mál varðar og sex virkjunarkostir voru færðir úr nýtingarflokki yfir í biðflokk, virkjunarkostir sem hefðu getað skapað þúsundir starfa hér á landi á næstu árum, eins og til að mynda í Þjórsá þar sem virkjunarkostir eru hvað mest rannsakaðir á landinu og í raun búið að hanna öll mannvirki til að hefja virkjunarframkvæmdir þar. Í framhaldinu hefðu þessar virkjanir getað skilað heilmikilli orku og skapað þúsundir starfa vítt og breitt um landið. Ég mun kannski koma að því síðar í ræðu minni.

Það er því dapurlegt að ræða hér um mál sem ég tel að menn hefðu getað náð víðtæku samkomulagi um þar sem það byggir á þeirri miklu vinnu sem hefur verið í gangi sl. 13–14 ár, en það virðist vera þannig með þessa ríkisstjórn að ef mikill ófriður er í boði þá er hann tekinn fegins hendi. Þess vegna er málið komið í þann farveg núna, og við sjáum það á umsögnum um málið, að það er verulegt ósætti í samfélaginu út af vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar í þessum mikilvæga málaflokki. Við getum nefnt aðila vinnumarkaðarins, talsmenn launþega og fyrirtækja í landinu, sem hafa gagnrýnt þetta verklag og framferði ríkisstjórnarinnar harðlega. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem ríkisstjórnin verður fyrir ákúrum úr þeirri átt. Það erum ekki bara við í stjórnarandstöðunni sem höfum verið að gagnrýna. Sambærilegt vinnulag má líka rekja til sjávarútvegsins sem hefur verið haldið í mikilli óvissu á undanförnum árum af hálfu ríkisstjórnarinnar og nú síðast ferðaþjónustan. Ríkisstjórnin hefur gengið þannig fram gagnvart grundvallaratvinnugreinum þjóðarinnar að stórskaði hefur hlotist af.

Á sama tíma ræðum við á Alþingi hvernig við getum aukið atvinnu í íslensku samfélagi, hvernig við getum aukið tekjur ríkissjóðs, sveitarfélaga og heimila í landinu. Á sama tíma búum við við ríkisstjórn sem fer fram með þessum hætti. Það er ósköp eðlilegt að staðan sé orðin sú að atvinnuleysi sé mikið og fólk hafi flúið land til að fá atvinnu við sitt hæfi.

Í Viðskiptablaðinu á dögunum kom frétt um þær breytingar sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar er að reyna að koma í gegn á Alþingi með því að færa virkjunarkosti úr nýtingu yfir í bið. Ég ætla að lesa þá frétt, með leyfi forseta. Fyrirsögnin er á þessa leið:

„Sérfræðingar segja þá breytingu á þingsályktunartillögu að færa virkjanir í neðri hluta Þjórsár og Skrokkölduvirkjun í biðflokk kostnaðarsama.“

Fréttin hljóðar svo:

„Fjárfesting og afleidd áhrif orkunýtingar á landsvæðum verða 270 milljörðum kr. minni en ella verði breytingar á rammaáætlun raunin.

Atvinnuveganefnd hefur óskað eftir umsögnum um drög að þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Sérfræðingar Gamma hafa nú skilað umsögn en meðal þess sem þar kemur fram er að þær breytingar sem urðu á drögum að þingsályktunartillögunni og fram koma í endanlegri tillögu muni hafa kostnaðarsamar afleiðingar.

Þær breytingar urðu að virkjanir í neðri hluta Þjórsár og Skrokkölduvirkjun voru færðar í biðflokk. Sérfræðingar Gamma segja þessar breytingar leiða til þess að fjárfestingar í orkuframleiðslu og flutningi muni dragast saman um 120 milljarða kr. á árabilinu 2012–2016 og fjárfestingar í orkufrekum iðnaði og afleidd áhrif af þeim muni dragast saman um 150 milljarða kr. Samtals verður fjárfesting og áhrif fjárfestingar því 270 milljörðum minni en annars hefði verið.

Fyrir vikið verður hagvöxtur 4–6% minni og atvinnulífið verður af um 5 þús. ársverkum á þessu fjögurra ára tímabili.“

Ég minni frú forseta á að við höfum nýlega lokið langri umræðu, 2. umr., um fjárlög þar sem við framsóknarmenn, eða stjórnarandstaðan að stærstum hluta, bentum á að það vantaði tilfinnanlega fjárfestingu í íslenskt samfélag. Það er kannski vegna skorts á fjárfestingu sem ríkissjóður er eins snauður og raun ber vitni og svo lítið svigrúm er til að setja aukna fjármuni í heilbrigðis- og velferðarkerfið. Nú ræðum við mál ríkisstjórnarinnar þar sem fjárfesting mun dragast saman, verði vilji stjórnarinnar eða Vinstri grænna að veruleika, um 270 milljarða ísl. kr. sem hefði væntanlega annars fært ríkissjóði tugi milljarða í auknar tekjur, líka sveitarfélögunum í landinu. Við mundum skapa fleiri störf, það væru færri á atvinnuleysisbótum og vonandi gætu þeir sem hafa farið á undangengnum árum til Noregs, sérstaklega iðnaðarmenn, smiðir, komið heim og stundað vinnu við sitt hæfi. Það væri sem sagt verkefni hér að hafa í byggingariðnaði en það hefur eins og við vitum stórlega dregið úr fjárfestingu í þeirri atvinnugrein. Nei, ríkisstjórnin ætlar sér að færa sex virkjunarkosti úr nýtingu yfir í biðflokk með fyrrgreindum afleiðingum.

Ágætlega er gerð grein fyrir stefnu Framsóknarflokksins í þessum efnum í áliti 1. minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason útbjó. Þar leggjum við til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og að þessir sex virkjunarkostir verði færðir yfir í nýtingarflokk í samræmi við niðurstöðu okkar bestu sérfræðinga. Hv. þingmaður sem talaði hér á undan mér, Unnur Brá Konráðsdóttir, sem hefur komið mikið að þessari vinnu á undangengnum árum, sagðist vera það mikil bjartsýnismanneskja að hún tryði ekki öðru en að ríkisstjórnarflokkarnir mundu setjast með okkur framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum að samningaborðinu þar sem við mundum breyta þessari þingsályktunartillögu á þann veg að við færum eftir vilja og ráðum helstu sérfræðinga okkar. Það er jafnvel það sem hefur skort hjá þessari ríkisstjórn, þ.e. að þiggja ráð frá okkar helstu sérfræðingum þegar kemur að stórum málaflokkum eins og sjávarútveginum o.fl. Maður þorir varla að minnast á Icesave-málið, það var náttúrlega með ólíkindum hvernig menn flumbruðust í gegnum það og tóku ekki ráð okkar bestu samningamanna heldur sendu lítt reynda menn að samningaborðinu í fyrstu atlögu og því fór sem fór. Mér sýnist að hér eigi enn og aftur að hunsa ráð helstu sérfræðinga þjóðarinnar.

Það segir sig náttúrlega sjálft að verði þessi þingsályktunartillaga samþykkt með naumum meiri hluta, og í raun gegn ráðum okkar helstu sérfræðinga, þá hefur hún ósköp takmarkað gildi. Ég hefði haldið að við færum eftir ráðum sérfræðinganna og samþykktum það samhljóða í þinginu að styðjast við vinnu þeirra og leggja málið fram með þeim hætti. Það hefði verið nokkurs konar salómonsdómur og ný ríkisstjórn hefði ekki tekið slíka rammaáætlunina upp í kjölfar næstu kosninga. Nú er málið hins vegar í bullandi ágreiningi við aðila vinnumarkaðarins, okkar helstu sérfræðinga og stjórnarandstöðuna í þinginu. Það er alveg ljóst samkvæmt skoðanakönnunum að hverfandi líkur eru á því að Samfylking og Vinstri hreyfingin – grænt framboði geti myndað ríkisstjórn ein og sér að afloknum næstu kosningum. Hér er fyrst og fremst verið að kasta rýrð á vinnu sérfræðinganna og það er alveg ljóst að þeir flokkar sem munu koma að næstu ríkisstjórn munu vilja skoða þessi mál betur, að minnsta kosti framsóknarmenn.

Mikið hefur verið talað um framtíðarsýn stjórnmálaflokka í þessum málaflokki og mig langar að síðustu að vekja aðeins máls á því hvernig við framsóknarmenn höfum fjallað um orkumálefni á undangengnum árum. Stofnuð var atvinnumálanefnd Framsóknarflokksins sem skilaði skýrslu í apríl árið 2011 þar sem farið er sérstaklega yfir orkumál og orkuskipti og framtíðarsýn Framsóknarflokksins í þessum málaflokki. Þar er fjallað um þau fjölmörgu tækifæri sem eru í málaflokknum, með leyfi forseta:

„Virkjunarframkvæmdir eru mjög atvinnuskapandi en nauðsynlegt er að um þær ríki sem víðtækust sátt. Því er lagt til að aðferðafræði rammaáætlunar verði beitt til að flokka virkjunarkosti og forgangsraða þeim með tilliti til verndunar og nýtingar. Þar sem eftirspurn eftir endurnýjanlegri og umhverfisvænni orku eykst stöðugt á slík forgangsröðun og áhersla á fjölbreyttan kaupendahóp smám saman að styðja við og auka verðmæti seldrar orku, þ.e. hámarka afrakstur orkuauðlindanna á eðlilegum nýtingartíma (gæta til að mynda að jafnstöðuvinnslu í jarðvarma). Jafnframt eru mikil tækifæri í orkusparnaði hér á landi, m.a. með bættri einangrun húsa og notkun varmadælna á þeim svæðum sem ekki eiga kost á heitu vatni til húshitunar og til nýtingar jarðhita þar sem hás hitastigs er krafist, í matvælaiðnaði og víðar.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Leitast verði við að þær tafir sem orðið hafa á frumvarpi til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða seinki ekki mikilvægum virkjunarframkvæmdum og rannsóknum á svæðum sem ljóst þykir að hafi hvað minnsta umhverfisröskun í för með sér af þekktum virkjunarhugmyndum. Með því er unnt að skapa allverulegan fjölda starfa við framkvæmdir og rannsóknir á erfiðum tímum atvinnuleysis.

Stjórnvöld setji sér jafnframt markmið um að árið 2020 komi að minnsta kosti 10% orku sem notuð er í samgöngum innan lands frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Dregið verði enn frekar úr notkun rafmagns til húshitunar á köldum svæðum með auknum styrkjum til fjárfestinga á varmadælum, einangrun húsa o.s.frv. til að auka lífsgæði íbúa á þessum svæðum og til að losa um orku í raforkukerfinu sem nýta má til atvinnuskapandi verkefna.“

Í þessari skýrslu er lagt til sem fyrstu skref, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld afgreiði á vorþingi 2011 frumvarp til laga um verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og háhitasvæða og vinni í framhaldinu faglega að veitingu virkjanaleyfa í samræmi við ný lög og innan tilskilinna tímafresta stjórnsýslunnar.

Ekki verði beðið með veitingu virkjanaleyfa fram að gildistöku laganna fyrir þá virkjunarkosti sem augljóst þykir að falli innan nýtingarflokks og séu þannig bæði hagkvæmir og hafi tiltölulega litla umhverfisröskun í för með sér. Með því verði skapaðar forsendur fyrir atvinnuuppbyggingu við bæði virkjunarframkvæmdirnar sjálfar og eins við framkvæmdir á vegum orkukaupenda þegar slíkar hugmyndir hafa farið í gegnum viðeigandi leyfisveitingaferla innan stjórnsýslunnar.“

Síðan er dregið saman hvað einstakir virkjunarkostir gætu skilað af sér. Þá eru eftirfarandi dæmi tekin um störf sem geta skapast við einstakar virkjunarframkvæmdir:

Hvammsvirkjun sem nú er verið að færa úr nýtingarflokki í biðflokk, 790 ársverk.

Holtavirkjun sem nú er verið að færa úr nýtingu í biðflokk, 460 ársverk.

Urriðafossvirkjun sem nú er verið að færa úr nýtingu í biðflokk, 850 ársverk.

Þarna erum við að tala um rúmlega 2 þús. störf á tímum atvinnuleysis og þegar skortir heilmiklar fjárfestingar í íslenskt samfélag. Það er náttúrlega með ólíkindum að horfa upp á verklag ríkisstjórnarinnar sem gumar sig svo af því að hafa gert hér kraftaverk á undangengnum árum og þvílík uppbygging hafi átt sér stað í samfélaginu. Þetta eru náttúrlega hreinræktuð öfugmæli þegar kemur að fjárfestingu og því verkefni sem við eigum að hafa í hávegum, þ.e. að auka fjárfestingar. Það er ekki verið að gera það með þessari þingsályktunartillögu og það er ekki verið að fara að ráðum okkar helstu sérfræðinga þegar kemur að því að setja þessa sex virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk þannig að ríkisstjórnin vinnur ekki faglega að málum. Það er heldur ekki verið að vinna í þágu íslensks atvinnulífs eða í þágu launafólks í landinu með því að slá þessum verkefnum á frest. Við gætum á næstu árum, eins og með Þjórsá þar sem virkjunarkostir eru nær fullhannaðir, skapað nokkur þúsund störf á ári og varanleg störf í framhaldinu með því að nýta þá raforku sem Þjórsá gæfi. Við gætum skapað þúsundir starfa í Suðurkjördæmi og á Reykjanesi. En það á að slá því á frest eins og svo mörgu öðru í samfélaginu.

Ég vonast til þess, eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, að ríkisstjórnin brjóti odd af oflæti sínu, setjist niður með okkur hinum og við förum að ráðum helstu sérfræðinga okkar á sviði umhverfismála og virkjunarmála og látum þá hafa áhrif á þessi mál. Það eru pólitísk fingraför á þessu máli. Það er ekki til sóma. Það er búið að setja verkefnið, sem var sett á fót með starfshópi árið 1999, í uppnám og það er alveg ljóst að þetta plagg, verði það samþykkt, mun hafa mjög takmarkaða þýðingu í framtíðinni. Ég spái því að örlög þess verði þau að næsta ríkisstjórn muni taka málið upp og gera á því breytingar.