141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:05]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þeir eru lunknir við það samfylkingarmenn að reyna að endurskrifa söguna. Satt best að segja, þegar ég hlustaði á hv. þm. Árna Pál Árnason ræða um hversu æðisleg Samfylkingin væri í þessum málaflokki, skellti ég upp úr vegna þess að sjálfshólið hjá þeim stjórnmálamanni um sinn stjórnmálaflokk var með eindæmum. Það var bara eins og Samfylkingin hefði ein komið að þessum málum, en staðreyndin er sú að vinnan hófst árið 1999. Það er rétt sem hv. þingmaður Jón Gunnarsson sagði að það var forgangsmál hjá ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að setja þessa vinnu af stað og reyna að ná sáttum í málaflokknum.

Í hvaða stöðu erum við í dag? Jú, ríkisstjórnin er búin að kukla í þessum málum og Vinstri grænir hafa fengið sitt í gegn, örugglega með hótunum um að slíta annars ríkisstjórnarsamstarfinu, um að sex virkjunarkostir verði færðir úr nýtingarflokki yfir í biðflokk. Það mun valda því að á árabilinu 2012–2016 verður fjárfesting 270 (Forseti hringir.) milljörðum kr. lægri en hún hefði ella getað orðið.