141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:13]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni í kvöld fór ég yfir hvað óbeisluð orka væri margar gígavattstundir hér á landi. Við erum einungis búin að virkja um 30% af því sem talið er að hægt sé að virkja. Ég er ekki svo einlægur virkjunarsinni að telja að hér eigi að virkja allt sem hægt er að virkja heldur eigum við að gera það í sátt við náttúruna.

Það er nefnilega svo að með vaxandi orkuþörf er keyrður samhliða sá ótti að loftslagsbreytingar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda verði æ meiri ógn við samfélagið. Við þekkjum þessa umræðu frá Evrópusambandinu sem ég fór aðeins yfir í fyrri ræðu, en á sama tíma vex sú krafa samfélagsins að við fáum að njóta útivistar í ósnortinni náttúru. Að komast út úr manngerðu umhverfi, út úr höfuðborginni, út úr borgum og bæjum því víðerni eru vissulega náttúruauðlind eins og allar okkar orkuuppsprettur, sama hvort það er vatnsfall eða byggt á öðrum grunni.

Mig langar til að vísa í niðurstöðu skýrslu 1. áfanga rammaáætlunar, á bls. 70 en þar stendur, með leyfi forseta:

„Engin ein skilgreining er fyrir hendi sem svarar spurningunni hvað það er sem skilur á milli sjálfbærra og ósjálfbærra virkjunarhugmynda. Hins vegar má með samanburði greina hvort tiltekin virkjunarhugmynd sé sjálfbærari en önnur. Opið og gegnsætt ákvörðunarferli á að leiða fram kosti og ókosti valkosta. Í skýrslu alþjóðlegrar nefndar um stórar stíflur (World Commission on Dams) er að finna leiðbeiningar um hvernig á að haga umfjöllun og ákvörðunartöku til að tryggja niðurstöðu sem er samfélaginu hagfelld. Fyrsta stigið í ákvörðunartökunni felst í því að staðfesta hvort meint þörf fyrir vatn og orku sé raunveruleg og æskileg. Ef svarið er „já“ þá ber á öðru stigi að greina alla hugsanlega valkosti til að mæta tiltekinni þörf og velja þann sem er talinn hafa jákvæðar („góðar“) fjárhagslegar, félagslegar og umhverfislegar forsendur. Frá þessu sjónarhorni er samanburður virkjana í rammaáætlun aðferð sem gæti stuðlað að því að orku verði aflað með sjálfbærari hætti.“

Vegna þess að stjórnarliðar hafa verið iðnir við það í þessari umræðu sem og 2. umr. langar mig að benda á að við sem erum að reyna að opna augu ráðherra í þessari ríkisstjórn erum málefnaleg og mig langar að beina umræðunni á þá braut sem var farin í upphafi. Í fyrri ræðu fór ég yfir lögfræðilegan feril til ársins 2009, hvernig þessi mál hafa þróast. Ég benti á að árið 1990 hafi t.d. umhverfisráðuneytið verið stofnað fyrir tilstilli Framsóknarflokksins. Þá var það akkúrat þessi gegnsæja aðferðafræði sem var mælistika sem fyrri hópurinn vann eftir, þegar sá hópur var stofnaður. Hún var sótt í þessa skýrslu og ákvarðaði hvaða leiðir skyldu valdar við þessa flokkun.

Frá upphafi var það alltaf markmið verkefnisstjórnarinnar um rammaáætlun að vinna samkvæmt gegnsærri aðferðafræði. Hún átti að tryggja sem kostur var að um trúverðuglega og rökstudda útkomu yrði að ræða og að efasemdarraddir gætu skoðað matsferlið og rakið niðurstöðuna til baka. Þetta er grundvallaratriði og þetta verður að koma fram vegna þess að svo var almenningi hleypt að þessari vinnu bæði í umsóknarferli og þeir sem unnu bæði að 1. og 2. áfanga héldu marga fundi um allt land.

Svo velti nefndin fyrir sér hvaða leið ætti að fara varðandi hvernig velja ætti á milli kostanna. Það var þessi norska aðferð sem varð fyrir valinu, hún gengur m.a. út á að virkjunarkostir eru settir í sex hagkvæmnisflokka á grundvelli kostnaðar og orkuframleiðslu. Einnig var athugað hvernig virkjanir mundu hafa áhrif á umhverfið, það var sett upp í 13 mismunandi svið gagnvart t.d. gróðri, flóðum, mengun, skot- og fiskveiði, grunnvatni, útivist, byggðasjónarmiðum og svo má lengi telja. Síðan var farið eftir AHP-aðferðinni. Það er aðferðafræði sem má finna í gögnum um rammaáætlun, en þar var sett upp ákveðin statistík til að velja milli kosta þegar markmiðið var að komast að bestu niðurstöðunni.

Varðandi ferlið sem málið fór í árið 2011 þegar rammaáætlun fékk lögformlega stöðu þá taldi hópurinn sem var skipaður í verkefnisstjórnina, og má segja stjórnmálamenn líka, að hún þyrfti að fá þá stöðu því að niðurstaða var komin. Mig langar að sýna fram á hverjir voru tilnefndir í seinni verkefnisstjórnina. Formaður var t.d. skipaður sameiginlega af iðnaðar- og umhverfisráðherra. Þarna var aðili tilnefndur af Samtökum ferðaþjónustunnar, aðili tilnefndur af landbúnaðarráðherra, aðili tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Náttúruverndarsamtökum Íslands, Orkustofnun, Umhverfisstofnun, Fornleifavernd ríkisins, iðnaðarráðherra, forsætisráðherra og umhverfisráðherra þannig að í þessum hópi var mjög víðtæk þekking akkúrat úr þeim geira sem málið snertir. Enda eru flestir sammála um að plaggið sem út úr þessu kom hefði átt að vera grunnurinn að þeirri rammaáætlun sem nú er til umræðu hér.

Þann 17. október 2007 taldi nefndin að rammaáætlunin þyrfti sem allra fyrst að fá lögformlega stöðu í stjórnkerfinu og eins og ég sagði áðan var frumvarp samþykkt hér á þingi, lög nr. 48/2011, þann 11. maí 2011. Þessi lög eru því nýlega samþykkt og tilgangur þeirra var að verndar- og orkunýtingaráætlun mundi verða samþykkt og fá lögformlega stöðu. Við þingmenn minni hlutans studdum þetta mál og var ákvæði í þessum lögum að ráðherra gæti farið með þá rammaáætlun sem lá fyrir hjá starfshópnum 12 vikna umsagnarferli til aðila sem var leitað til. Að þeim umsagnartíma loknum voru ekki gerðar veigamiklar breytingar, það má segja mjög smávægilegar breytingar, á rammaáætluninni en ég get sagt að ekki datt okkur í hug að ríkisstjórnin mundi misfara svo með vald sitt sem síðar varð raunin. Að taka rammaáætlun, skera hana upp, breyta henni og við sjáum hvað er lagt fyrir þingið núna.

Virðulegi forseti. Það eru kannski stór orð að segja að ríkisstjórn misfari með vald sitt en þegar lög eru sett á ákveðnum forsendum og í góðri trú af þingmönnum þá er mjög kaldranalegt þegar ríkisstjórn kemur svo í bakið á þingmönnum eins og raun ber vitni. Þegar lögin voru samþykkt stóðu allir þingmenn í þeirri trú að rammaáætlunin mundi koma óbreytt hingað inn í þingið og fá hér þinglega meðferð en sú er ekki raunin sem við stöndum frammi fyrir í dag. Það er búið að hræra í flokkunum sem rammaáætlun byggir á, nýtingarflokki, biðflokki og friðlýsingarflokki. Það er búið að taka virkjunarkosti úr nýtingarflokki og setja inn í biðflokk og sumir eru komnir inn í friðlýsingu, alla vega einn eða tveir að því sem ég best man. Þessi vinnubrögð eru ekki tæk. Ég lýsi fullri ábyrgð á þessari þingsályktunartillögu á hendur ríkisstjórninni. Hér starfar ríkisstjórn sem fer fram með mál í ófriði en ekki friði og í þokkabót á fölskum forsendum og gengur á bak orða sinna.