141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, svo sannarlega er málið komið vel út af sporinu, svo ekki sé meira sagt, en þetta er heldur ekki fyrsta málið sem þessi ríkisstjórn keyrir langt út af sporinu, jafnvel út í skurð.

Hv. þm. Birgir Ármannsson spyr hvað beri að gera. Nú fer 2. umr. um þessa þingsályktunartillögu fram langt inn í nóttina og þegar henni lýkur verður atkvæðagreiðsla. Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir talaði um í fréttum fyrir nokkrum dögum að hún ætlaði sér kannski ekki með stjórnarskrána í gegn með hinum lægsta samnefnara, eins og hún sagði það. Miðað við hvernig stjórnarliðar hafa komið að nefndarálitinu með fyrirvörum sýnist mér að þessi þingsályktunartillaga verði jafnvel knúin hér í gegn á mjög lágum samnefnara meiri hluta þingmanna. Það má vel vera en það er þá heldur ekki í fyrsta sinn sem þessi ríkisstjórn beitir valdi sínu.

Ef þetta verður þingsályktun frá Alþingi þá er tvennt í stöðunni. Annað er að fella þingsályktunartillöguna úr gildi og koma með nýja þingsályktunartillögu þegar búið er að koma þessari ríkisstjórn frá eftir næstu kosningar, eða þá að skoða lögin frá 2011 á einhvern hátt. Þau eru nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Það eru ýmsar leiðir til en sem betur fer er auðvelt að breyta almennum lögum og þegar þjóðþing starfar með þessum hætti eins og við horfum upp á núna, í miklu ósætti og er að knýja í gegn um (Forseti hringir.) þingið stórmál í ósætti þá geta þingmenn sem betur fer breytt þeim eftir nýjar (Forseti hringir.) kosningar.