141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:02]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þar sem þingmaðurinn situr í samgöngunefnd þingsins, eða þeirri nefnd sem fjallaði um þetta mál, rak ég augun í niðurstöður úttektar Gamma sérfræðingafyrirtækisins sem bentu á að á árabilinu 2012–2016 munu fjárfestingar verða 270 milljörðum kr. lægri vegna þess að verið er að færa sex virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk. Hvernig var það innan nefndarinnar, var ekkert rætt um þá milljarðatugi sem ríki og sveitarfélög verða af vegna minni fjárfestingar? Skiptir það einfaldlega engu máli í umræðunni? Við erum nýbúin að klára umræðu um fjárlög þar sem menn töluðu um skort á fjárfestingu og tekjum fyrir ríkissjóð og það hlýtur að hafa verið verulegt innlegg í umræðu um fjárfestingu og virkjunarkosti hér á landi.