141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get svarað því neitandi. Mér finnst bara dálítið sérstakt að allar ábendingar sem tekið var mark á voru í aðra áttina. Það var sama slagsíðan á öllum þeim ákvörðunum sem voru teknar og voru þó rök, sjónarmið og gögn sem hnigu í aðra átt varðandi aðra kosti sem líka komu fram í umsagnarferli. Það var ákvörðun ráðherranna, og ef ég man rétt sagði hæstv. umhverfisráðherra það sennilega við umræður í vor, eða viðhorf þeirra að þeim bæri að taka meira tillit til umsagna og ábendinga sem hnigu í verndarátt frekar en nýtingarátt. Það byggir auðvitað á pólitísku mati, á pólitískum viðhorfum og hugmyndafræðilegum sjónarmiðum sem ekki er sátt um.

Ég hef ekki haldið því fram að ráðherrarnir hafi brotið lög en ég veitti því athygli að slagsíðan er ótvíræð.