141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:14]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get svarað þessu með mjög einföldum hætti. Ég hef ekki fjallað neitt um þá tilteknu virkjunarkosti sem hv. þingmaður nefnir. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um að engar niðurstöður eru óskeikular eða hafnar yfir gagnrýni í þeim efnum. Hins vegar byggir ferlið á ákveðinni sátt um aðferð við að taka ákvörðun.

Þegar menn hafa lagt sig fram við að fylgja því ferli um langt skeið gerist það á lokastigi, áður en málið kemur inn til þingsins, að teknar eru nokkrar ákvarðanir augljóslega á pólitískum forsendum og allar í sömu átt. Það er það sem ég hef gagnrýnt en ekki ákvarðanir sem hugsanlega hafa verið teknar á fyrri stigum málsins en ég er alveg sammála. Það má deila um alla þætti í því. Ég til dæmis furða mig á því (Forseti hringir.) að Norðlingaölduveita sé ekki miklu ofar (Forseti hringir.) á listanum.