141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:15]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Sátt um aðferð, það er satt. Alþingi var mjög sátt um aðferðina sem ætti að nota í þessu máli og ákvað samhljóma nákvæmlega hvert ferli málsins ætti að vera. Eftir því hefur verið farið.

Það hefur verið hlustað á umsagnir, reyndar alls ekki nægilega eins og til að mynda varðandi gríðarlega verðmæt svæði á Reykjanesskaganum. Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Deilir hann áhyggjum ýmissa vísindamanna og annarra, og ég tel jafnvel þingmanna í öllum flokkum, af jarðvarmavirkjunum, brennisteinsvetnismengun, mengandi affallsvatni, jarðskjálftavirkni og hugsanlegum neikvæðum áhrifum á heilsufar manna og telur hann að einhverjar upplýsingar kunni að skorta hvað þeim sviðum viðkemur?