141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[01:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla mér ekki þá dul að gefa hæstv. forseta ráð í þessu sambandi en ég vil hins vegar vekja athygli hæstv. forseta á að það eru fáir þingdagar eftir fram að jólum miðað við starfsáætlun. Það eru mörg mál sem þarf að afgreiða með tilliti til áramótanna, fjárlög og mál sem tengjast fjárlögum, mál sem vegna innihalds síns og eðlis eru óhjákvæmileg og þurfa óhjákvæmilega að afgreiðast í kringum áramót. Þetta mál er ekki eitt þeirra. Þess vegna spyr ég hæstv. forseta: Hvaða nauðsyn ber til að keyra umræðu um þetta mál áfram með þeim hætti sem hæstv. forseti virðist ætla að gera? Hvaða nauðsyn, hvaða atriði eru það í innihaldi þessa máls, efnisatriðum þessa máls sem gera það að verkum að hæstv. forseti tekur þetta mál fram yfir ýmis mál sem fela í sér dagsetningar, (Forseti hringir.) fjárlagatengingu sem er nauðsynlegt að afgreiða vegna áramótanna?