141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[02:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skörulega ræðu. Mér fannst hann komast dálítið að kjarna málsins þegar hann vitnaði í greinargerð með þessari tillögu þar sem í textanum stendur að ríkisstjórnin sé að reyna að skapa sátt um málaflokkinn. Þetta er náttúrlega ódýr brandari miðað við hvernig málin blasa við núna. Það er búið að breyta í grundvallaratriðum því áliti sérfræðinga sem hafa unnið frá síðustu öld að málinu og komin pólitísk fingraför á þann málaflokk sem Vinstri grænir hafa sett sitt mark á.

En þetta er ekki eini málaflokkurinn og mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvort við getum verið sammála um að ríkisstjórnin hafi líka leikið aðrar atvinnugreinar grátt. Við getum tekið sjávarútveginn sem dæmi og ferðaþjónustuna og hringlandahátt ríkisstjórnarinnar gagnvart þessum undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Hv. þingmaður nefndi áðan að við erum jafnvel að tala um 5 þús. störf sem eru undir í mannaflsfrekum iðnaði samhliða því að byggja þessar virkjanir og afleidd störf í framhaldi af því þegar orkan kemur til skjalanna.

Að sama skapi horfum við núna upp á að fleiri og fleiri ráðstefnum hefur verið aflýst út af hringlandahætti ríkisstjórnarinnar í tengslum við skattlagningu á ferðaþjónustu. Aðilar í sjávarútvegi hafa haldið aftur af sér í fjárfestingum og þar með höfum við tapað störfum. Reyndar hefur atvinnustefna ríkisstjórnarinnar varðandi sjávarútveginn snúist upp í andhverfu sína vegna þess að nú eru litlar og meðalstórar útgerðir í miklum erfiðleikum og stóru aðilarnir eru að kaupa þær upp. Var það takmarkið með atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar og veiðigjaldinu? Hringlandaháttur ríkisstjórnarinnar í þessum stóru málaflokkum er yfirgengilegur.