141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[02:12]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Starfið í umhverfisnefnd með hinum fjölbreyttu inngripum ýmissa nefndarmanna, stjórnarsinna, hefur minnt svolítið á vangaveltur sem einn framsýnn skurðlæknir setti fram á sínum tíma, að það væri ágætt að gera hjartaaðgerðir frá bakhliðinni, fara í gegnum bakið. Það hefur ekki reynt á þetta svo vitað sé enda lenti þessi ágæti læknir á sínum tíma í hvíldarstöðu og hafði vonandi gott af. Hæstv. ríkisstjórn metur það svo að ágætt sé að fara bara í gegnum hjartað inn í þessa aðgerð sem þarf að tryggja og byggja upp líkama þjóðarinnar og velta ekkert fyrir sér neinni smámunasemi eða hefðbundnum viðmiðunum lítillar fjölskyldu sem þarf að búa í sátt og samlyndi að mestu.

Það getur auðvitað hvesst, en það lygnir alltaf eftir hretið. Á þeirri reynslu eiga menn að læra. Maður lærði svolítið um nashyrninga á sínum tíma á ferðum um Afríku. Þegar nashyrningar urðu trylltir settu þeir undir sig hornin og óðu á hvað sem var, hvar sem var og hvernig sem var, og fóru í gegn þegar trén voru ekki þeim mun stærri eða kletturinn sem ráðist var á. Þannig er hæstv. ríkisstjórn í þessu efni og vonandi fær hún hvíld fyrr en seinna.