141. löggjafarþing — 50. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[02:17]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst og fremst hefði þurft að hafa þá hugsun að búið væri að forvinna málið á einni nótu, á einn veg til sáttar. Út frá því hefði verið hægt að vinna og hleypa hlutum í eðlilegan farveg með mörgum þröskuldum, hvort sem menn tala um nýtingarflokk eða annað. Það hefði verið hægt. En það var ekkert svigrúm fyrir það vegna þess að framsögumaður málsins tók í rauninni völdin og komst upp með það með yfirlýsingum sem ég hef aldrei orðið var við á nær þriggja áratuga starfi í nefndum þingsins.

Það er reynsla sem maður verður að segja frá af því að hún rekst á við öll eðlileg, hefðbundin og skynsamleg vinnubrögð. Ég er ekki að líkja neinum einstaklingi við nashyrning en að athuguðu máli er hugmyndin svo sem ekki galin, en það er ég ekki að gera. Ég minni á að margt í þessu er á skjön og ekki er leitað til fólks á eðlilegan hátt og framganga málsins er ekki eðlileg. Árni Helgason heitinn, símstöðvarstjóri í Stykkishólmi, var þekktur, sérstakur persónuleiki. Hann kom oft í bæinn, lágvaxinn og pattaralegur, gekk á milli manna og stofnana, heilsaði glaðhlakkalega og átti heiminn. Menn höfðu gaman af. Menn nutu persónu hans. Hann kom til að mynda oftar en einu sinni inn á ríkisstjórnarfundi án þess að nokkur vissi af og spurði: Hvað er að frétta? Eða á aðalfundi hjá SH eða stjórnarfundi og spurði: Hvað er að frétta? Reynt var að gera gott úr því og svo hélt fundurinn áfram. En það eru hlutir sem passa ekki í meðferð svona máls í samgöngunefnd Alþingis.