141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar til að kveðja mér hljóðs undir þessum lið vegna stöðu þingsins þessa dagana. Við ræðum nú rammaáætlun og það eru víst einhver áhöld um það hvort hér sé um málþóf að ræða eða ekki.

Ég hlustaði svolítið á umræðuna í gær og verð að viðurkenna að ég er mjög hneykslaður á málflutningi margra í þeirri umræðu þar sem ég hef setið með þeim í nefndum, ferðast með þeim um virkjunarstaði, tekið á móti gestum með þeim og svo koma þeir hingað upp og tala gegn betri vitund. Ég veit ekki hvað slík umræða á að þýða eða hverju hún á að skila, en ég bendi á að miðvikudaginn í næstu viku munu formenn stjórnmálaflokkanna enn einu sinni setjast inn herbergi og loka að sér og ákveða sín á milli, persónulega, hvaða mál fái framgang í þinginu. Tugum mála mun verða sópað út af borðinu vegna þess að ekki hefur gefist tími til að ræða þau. Með því er verið að gera meira en að sópa málum út af dagskrá; verið er að sópa lýðræðinu sjálfu út úr þingsal Alþingis. Það gengur ekki að slíkt fyrirkomulag verði við lýði hér þing eftir þing. Þetta er fjórða þingið sem ég sit á þar sem nákvæmlega þetta gerist. Það gerðist síðast nú í vor þegar um 70–80 málum var sópað út af borðinu og allri þeirri lýðræðislegu vinnu og umræðu sem fylgdi þeim var sópað út úr þinghúsinu í leiðinni.

Ég geri þá tillögu til hæstv. forseta þingsins að tekið verði almennilega á þessu máli og að skilgreindur verði fyrir fram sá tími sem fara á í að ræða þau þingmál sem eftir er að afgreiða á þessu þingi fram í miðjan mars. Annað er algerlega óboðlegt ef Alþingi á að kallast vettvangur lýðræðislegrar umræðu.