141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar til að koma hingað upp og ræða þá atburði sem fram undan eru um helgina varðandi stjórnarskrármál. Nú er fræðimenn að vakna til lífsins í þessum málum og eru orðnir gagnrýnni á þær niðurstöður sem fram koma í þeim frumvarpsdrögum sem liggja fyrir þinginu. Fréttir bárust af því að formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, væri á förum til að hitta Feneyjanefndina.

Ég og að minnsta tveir aðrir úr stjórnarandstöðunni í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd höfum farið fram á það við nefndina að fulltrúi stjórnarandstöðunnar fari með til að lýsa þeim sjónarmiðum og þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á frumvarpið. Við erum að hugsa um að fara með það á hærra stig og ég veit að viðræður hafa verið á milli þingmanna Framsóknarflokksins og forseta þingsins um það. Ég spurði hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur í gær hvort ekki yrði sagt frá þeim gagnrýnisröddum sem uppi hafa verið um frumvarpið á þingi. Hún taldi svo ekki vera og taldi það óþarft vegna þess að nefndin sjálf væri að koma hingað til landsins eftir áramót.

Ég fer fram á það við forseta þingsins að fulltrúi stærsta stjórnarandstöðuflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fái leyfi til að fara til fundar við Feneyjanefndina. Þegar ríki sendir erindi til Feneyjanefndarinnar, yfirlestur á stjórnarskrám, eru það fulltrúar stjórnarandstöðunnar í viðkomandi ríki sem fara á fund nefndarinnar til að koma sjónarmiðum sínum að því að eðli málsins samkvæmt er það alltaf meiri hluti þjóðþings sem leggur fram frumvörpin, alveg eins og hér á landi. En hér á landi er því að sjálfsögðu snúið við undir stjórn þessarar vinstri ríkisstjórnar, fulltrúi meiri hlutans fer á fund nefndarinnar. (Forseti hringir.) Það er óásættanlegt.