141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það kemur mér nokkuð á óvart hve mörgum hv. þingmönnum í dag er heitt í hamsi eftir ánægjulegan fundardag í gær og fram á nóttina þar sem skipst var á skoðunum um þýðingarmikil mál sem til umræðu eru á hv. Alþingi, ekki minna en rammaáætlun um vernd og orkunýtingu og er fyrirhugað að ræða hana áfram á næstunni. Það kemur mér á óvart að mönnum skuli vera heitt í hamsi á miðri aðventunni þegar frekar er ástæða til að gleðjast yfir því sem fram undan er.

Ég er sannfærður um að okkur mun lánast að afgreiða þau þýðingarmiklu mál sem liggja fyrir þinginu. Haft hefur verið á orði að nú væri runninn upp sá tími þegar stjórnarandstaðan byrjar með sitt hefðbundna málþóf. Ég veit ekki hvort það er sanngjarnt að kalla málin því nafni en vitaskuld verður stjórnarandstaðan að ráða því hvaða mál hæstv. forseti setur á dagskrá þingsins hverju sinni. Það er eðlilegt að hún ráði því og það er það sem komið hefur fram í málflutningi hennar þegar hún tekur til máls, t.d. undir liðnum fundarstjórn forseta, þ.e. hún setur fram kröfur sínar. Ég er alveg undrandi á því að þingmenn úr stjórnarliðinu skuli hafa athugasemdir við að stjórnarandstaðan haldi uppi þeim málflutningi sem hún vill eins lengi og hún vill. Það sem kemur á óvart er að hún skuli yfirleitt greiða atkvæði gegn því á þessum tíma að haldnir séu fundir fram á kvöld og nætur til að ljúka afgreiðslu mála sem vissulega eru þýðingarmikil og við þurfum að ljúka.

Vegna orða hv. 8. þm. Reykv. s. tel ég einboðið að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, (Forseti hringir.) bjóði hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur með sér til Feneyja. (VigH: Þakka þér fyrir.)