141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þingmanna um umræðuna um rammann í gær og reyndar þegar hún hófst fyrir tæpum þrem vikum. Umræðan í gær var góð, hún var málefnaleg, hún var ítarleg, hér fóru fram skoðanaskipti og ég tek undir orð hv. þm. Illuga Gunnarssonar um að ég vona að hún verði það áfram og menn forðist málþóf, ljúki umræðunni í dag eða á morgun og staðfesti rammann sem er ótvírætt framfaraskref í náttúruvernd og sjálfbærri nýtingu auðlinda okkar um leið og með honum er settur ákveðinn rammi til frambúðar fyrir orkufyrirtækin þannig að þau séu betur í stakk búin til að gera áætlanir inn í framtíðina. Það þurfum við að gera fyrir áramót.

Mig langar til að víkja augnablik að vinnunni við stjórnarskrárfrumvarpið og orðum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur um að nú væru fræðimenn að vakna til lífsins. Það kann að vera að einhverjir séu að vakna til lífsins en fræðimenn hafa verið að fjalla um stjórnarskrána, m.a. á fundum hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, í rúmt ár, hv. þingmaður, og ég hef ekki orðið vör við annað en að þeir hafi verið bærilega vel vakandi og áhugasamir. Það kom ágætlega fram í góðri frétt Ríkisútvarpsins í hádeginu í gær, (Forseti hringir.) það var viðtal við Guðmund Alfreðsson þjóðréttarfræðing (Gripið fram í.) þar sem hann fór yfir samskipti sín við nefndina sem var á fundi í gærmorgun.

Það er rétt að vekja athygli á því að allir fundir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um þetta mál eru opnir fjölmiðlum. Mig langar aðeins til að segja að það er að sjálfsögðu rétt að leita eftir áliti Feneyjanefndarinnar og ég vek athygli hv. þingmanns á því að formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er boðinn til nefndarinnar til að leggja málið þar fyrir. Það er ekki eins og (Forseti hringir.) það sé verið að senda formanninn á vegum þingsins. Þetta er boð til formanns (Forseti hringir.) nefndarinnar um að leggja málið fyrir.