141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Varðandi stjórnarskrána og Feneyjanefndina tel ég fullkomlega eðlilegt að á sama hátt og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar óskaði eftir að verða boðaður fyrir Feneyjanefndina muni stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd jafnframt óska eftir því að fulltrúi stjórnarandstöðunnar fari þá sömu leið og verði einnig boðaður. Það er fullkomlega eðlilegt. Í öðrum löndum þar sem fjallað hefur verið um þetta, til að mynda í Finnlandi, fór stjórnarandstaðan fram á að málið yrði sent til Feneyjanefndarinnar og fór fyrir nefndina með það mál. Ég held að við ættum að læra af reynslu annarra þjóða sem við berum okkur oft saman við og þá sjáum við að það er skynsamlegt að fara sömu leið.

En varðandi yfirlýsingar hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um að okkur sé heitt í hamsi og að við ættum að gleðjast yfir þeim málum sem til stendur að afgreiða hér verð ég að segja við hv. þingmann, frú forseti, að það er ekkert gleðiefni að afgreiða fjárlagafrumvarpið eins og það lítur út. Það er langt þar frá. (Gripið fram í.) Það er heldur ekkert gleðiefni að afgreiða rammaáætlun eins og hún lítur út, langt þar frá. Þess vegna höfum við í stjórnarandstöðunni reynt með umræðu að varpa ljósi á þá þætti sem við teljum nauðsynlegt að breyta og fá þann möguleika að opna augu meiri hlutans á því að það sé hægt.

Forseti þingsins er forseti allra þingmanna, bæði í meiri hluta og minni hluta, og þess vegna er fullkomlega eðlilegt að stjórnarandstaðan hafi skoðun á því hvað sé eðlilegt þó að stjórnarandstaðan ráði því auðvitað ekki. Þrátt fyrir yfirlýsingar hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar eru 24 mál á dagskrá og ef það er mat meiri hlutans að það sé skynsamlegt að eyða þessum sex til sjö síðustu þingdögum fyrir jól í að ræða rammaáætlun gerum við það en það er líka (Forseti hringir.) skynsamlegt að okkar mati að taka eitthvað af hinum málunum og afgreiða þau sem nauðsynlegt er.