141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Enginn hv. þingmaður hefur haft fleiri orð um hversu slæmt fyrirkomulag hefur verið varðandi Dróma en hæstv. forsætisráðherra sem lýsti því yfir í fyrirspurnatíma að það hefði verið skoðað lengi hvernig hægt væri að breyta því. Það væri ekki vitlaust að hv. stjórnarliðar mundu upplýsa okkur hvar það mál stendur sem er búið að vera í skoðun svona lengi og hæstv. forsætisráðherra hefur jafnsterkar skoðanir á og raun ber vitni.

Það er mjög mikilvægt að við upplýsum fólk um jafnstór mál og þarna eru á ferðinni. Hér kom hv. þm. Kristján Þór Júlíusson og benti á að hann fengi ekki gögn sem hann á að fá samkvæmt lögum. Ég minni á að hlutverk okkar, hv. þingmanna, er að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Ég vara við því hvernig hv. stjórnarþingmenn og hæstv. ríkisstjórn hafa haldið á málum hvað þessa hluti varðar. Þau hafa miskunnarlaust haldið upplýsingum frá þinginu. Núna er aðferðin sú, virðulegi forseti, að þegar spurningar eru lagðar fram er svarað með þögninni.

Ég tek bara tvö dæmi sem við erum búin að vinna að í hv. efnahags- og viðskiptanefnd í langa tíð. Annars vegar eru slitastjórnirnar. Lögum samkvæmt á eftirlitsstofnun að hafa eftirlit með slitastjórnum eins og um bankaráð væri að ræða. Hún hefur bara ekkert gert og það er ekki upplýst um viðskipti við þriðja aðila. Einu upplýsingarnar sem komu fram eru þær sem stéttarfélag hefur kallað fram um eina slitastjórnina.

Varðandi Byr og SpKef var því lofað að ekki félli króna af kostnaði upp á 25 milljarða á skattgreiðendur. (Forseti hringir.) Síðast í sumar sendi ég bréf, fékk svör með útúrsnúningum en þó áhugaverð, sendi framhaldsspurningar í október og það bólar (Forseti hringir.) ekki á svörum.