141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í dag hefur verið minnst á ýmis mál sem eru þess virði að fjalla um. Ég ætla að láta mér nægja að fjalla um eitt sem er í mínum huga stóralvarlegt. Það er það mál sem hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd hafa minnst á í dag, undandráttur fjármálaráðuneytisins og fjármálaráðherra á því að svara eðlilegum fyrirspurnum þingnefndar þar sem brotin eru skýr ákvæði þingskapa um rétt þingmanna til upplýsinga og svar sent fjórum vikum eftir að frestur rann út með orðalagi sem, með leyfi hæstv. forseta, er út í hött.

Þetta mál krefst þess að forseti og forsætisnefnd taki það til meðferðar vegna þess að hér reynir á rétt þingmanna til upplýsinga frá ráðuneytum um mál sem eru til meðferðar í þingnefndum. Hér er um að ræða brot á ákvæðum sem voru styrkt sérstaklega með breytingum á þingsköpum á síðasta ári. Það var meðvitað og samhljóða gengið til þess að styrkja upplýsingarétt þingmanna og hv. þingmenn gætu munað að það var ein helsta ástæðan fyrir því að farið var í þá breytingu á þingsköpum sem gerð var. Það átti að styrkja rétt þingmanna til að kalla eftir upplýsingum frá stjórnvöldum, ráðuneytum og ráðherrum.

Ákvæðin um það voru hert en í því tilviki sem hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson og Ásbjörn Óttarsson hafa þegar nefnt í umræðunni var þessi regla þverbrotin, vísvitandi, af hæstv. fjármálaráðherra. Það er stóralvarlegt ef ráðherrann verður látinn komast upp með þetta.