141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég tek eindregið undir kröfur og óskir hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur varðandi það að stjórnarandstaðan sendi líka fulltrúa sinn á fund Feneyjanefndarinnar. Ég segi það ekki síst í ljósi þeirrar umfjöllunar sem átt hefur sér stað innan allsherjar- og menntamálanefndar þingsins varðandi ákveðna kafla, veigamestu kaflana sem snerta breytingar á stjórnarskránni, varðandi mannréttindakaflann og margt fleira sem fellur undir málasvið allsherjar- og menntamálanefndar.

Margar ábendingar hafa komið frá virtum fræðimönnum í þessum efnum, m.a. sagði einn það alveg skýrt og skorinort að að sínu mati væri um umboðsskort að ræða af hálfu stjórnlagaráðs vegna þess að það hefðu ekki verið skilaboð þjóðfundarins að umbylta ætti mannréttindakaflanum. Það er þó nákvæmlega það sem verið er að gera með þessum tillögum. Hver höndin er uppi á móti annarri varðandi túlkun á mannréttindum, ekki síst þegar kemur að friðhelgi einkalífs gagnvart auknum upplýsingarétti, sem margir geta tekið undir. En þá þarf að vera skýrt hvað efla á og hvað á að skerða. Síðan er alveg ljóst í tillögum stjórnlagaráðs að ætlunin er að gerbreyta kafla um eignarréttinn. Þess vegna komu ábendingar, sem verða vonandi ekki hunsaðar, (Gripið fram í.) um að heildstætt mat, alla vega mat á þeim köflum sem snerta mannréttindin, yrði gert.

Ég tek undir kröfu og ósk hv. þingmanns áðan, ég trúi því bara ekki að stjórnskipunar- og eftirlitsnefndin hafi hafnað þeirri ósk. Er það virkilega rétt að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi hafnað formlegri ósk stjórnarandstöðunnar um að senda einn fulltrúa til Feneyja? (Gripið fram í: Já.) Ég trúi því ekki fyrr en á reynir. Ef það er rétt er það enn ein vísbendingin um að stjórnarmeirihlutinn beitir þöggun í málinu. (VigH: Rétt.)