141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

viðvera ráðherra og framsögumanns máls.

[15:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í nótt var kallað eftir því að framsögumaður þingsályktunartillögu um rammaáætlun, þess máls sem við munum ræða núna, væri hér viðstaddur þegar umræðan færi fram. Það varð ekki, framsögumaðurinn mætti ekki til umræðunnar. Sömuleiðis var kallað eftir því að hæstv. umhverfisráðherra væri viðstaddur umræðuna. Hæstv. umhverfisráðherra mætti ekki til umræðunnar en okkur var tjáð að hún hlustaði á umræðuna einhvers staðar annars staðar.

Nú er umræðan að hefjast og því vil ég spyrja hæstv. forseta: Liggur það þá ekki fyrir að framsögumaður málsins, sem kallað hefur sig ábyrgðarmann þess, verði viðstaddur umræðuna og einnig hæstv. ráðherra? Ég tek að vísu eftir því að menn eru einhvern veginn farnir að stimpla hæstv. ráðherra út úr umræðunni. Um leið og fyrri umr. er lokið er farið að segja sem svo: Ja, hæstv. ráðherra kemur málið ekkert við, hann á ekki að vera hér nærri, hann á ekki að taka þátt í umræðunni. Ég er algerlega ósammála því. Ég tel eðlilegt (Forseti hringir.) að hæstv. ráðherra sé að minnsta kosti viðstaddur umræður um stórmál sem hæstv. ráðherrar bera hér fram. Ég ítreka þess vegna að ég tel eðlilegt að eftir því sé leitað að framsögumaður málsins hið minnsta og hæstv. ráðherra verði viðstaddir þessa umræðu.