141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

viðvera ráðherra og framsögumanns máls.

[15:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég spurði hvort hv. framsögumaður þessa máls gæti ekki komið hingað og tekið þátt í umræðunni. Nú hefur verið greint frá því sem kemur nokkuð á óvart að hv. þingmaður hafi fjarvistarleyfi og verði ekki hérna í dag. Það hefur jafnframt verið upplýst að hv. formaður nefndarinnar verði hér eins og hann hefur gert alla þessa umræðu og á hrós skilið fyrir. Ég ætla bara að segja að mér þykja það ekki slæm skipti. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)

Að öðru leyti varðandi þessa umræðu er hún af því taginu að það er mjög eðlilegt að hæstv. ráðherra sem ber fram málið og eftir atvikum hæstv. atvinnuvegaráðherra líka séu viðstaddir þessa umræðu því að það er ekki eins og þingið missi sjálfstæði sitt þó að ráðherrar komi í salinn og séu viðstaddir umræðuna, eða er sjálfstraust okkar gagnvart sjálfstæði Alþingis ekki meira en svo að við missum fótanna þegar ráðherrar birtast? Auðvitað ekki, það er eðlilegt í umræðu af þessu tagi, a.m.k. svo stórri umræðu, (Forseti hringir.) að ráðherrar séu viðstaddir. Það hefur ævinlega verið gerð krafa um það, það hefur ævinlega verið talið sjálfsagt. Menn hafa jafnvel verið ræstir út um miðjar nætur eins og kunnugt er. Núna (Forseti hringir.) er klukkan ekki einu sinni orðin fjögur. Ég tel eðlilegt að hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. atvinnuvegaráðherra séu báðir viðstaddir þessa umræðu.