141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

viðvera ráðherra og framsögumanns máls.

[15:47]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér ekkert við því að segja þó að þingmenn óski eftir viðveru ráðherra sem þeir verða við eins og kostur er þó að þeir geti ekki setið allan tímann. En mönnum getur ekki verið alvara með því að fresta eigi umræðu um jafnmikilvægt mál og við erum að ræða hér eða nokkur önnur mál þó að einn tiltekinn þingmaður sé fjarverandi vegna annarra þingstarfa. (Gripið fram í: Ráðherra.) Það er auðvitað fráleitt. Það er stjórnarmeirihlutinn allur sem stendur á bak við málin (Gripið fram í.) en auðvitað sérstaklega þeir stjórnarþingmenn sem eru í nefndinni og bera mál fram. Mestu skiptir auðvitað að formaður viðkomandi nefndar, hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, situr umræðuna í miklu maraþoni. Það er aðdáunarvert og til mikillar eftirbreytni. Það er það sem mestu skiptir að umræðan öll er vöktuð af þingmönnum sem bera málið fram í síðari umræðu um þessa tillögu. Því ber að halda sérstaklega til haga, en að fresta umræðunni út af því að (Forseti hringir.) einn maður þurfi að fara til annarra starfa á vegum þingsins er auðvitað fráleitt.