141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

viðvera ráðherra og framsögumanns máls.

[15:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að bregðast vel við óskum sem fram hafa komið í umræðunni.

Það er annað mál sem ég ætlaði að nefna sem ég tók upp í gær og vakti athygli á. Ég og hv. þm. Árni Johnsen höfðum óskað eftir því að frumvarp Bjarna Benediktssonar o.fl. um breytingu á lögum um rammaáætlun yrði tekið fyrir í umhverfis- og samgöngunefnd. Þetta var gert í morgun en til að gera langa sögu stutta þá er það skýr vilji meiri hluta nefndarinnar að taka málið ekki fyrir þannig að það er ljóst að ætlunin er að halda áfram umræðu og umfjöllun um rammaáætlun án þess að það frumvarp sem hefur þó mikla efnislega samstöðu með málinu verði afgreitt úr nefnd til að unnt verði að fjalla um það samhliða í þinginu.

Ég vildi upplýsa hv. þingmenn um þetta. Mér þykir þetta miður vegna þess að auðvitað gengur frumvarpið, eins og allir sem það lesa sjá, út á að færa málið aftur í þann faglega farveg sem það var í hjá (Forseti hringir.) verkefnisstjórn áður en afskipti ráðherra byrjuðu.