141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður sagði áðan að ferlið einkenndist af trausti í 13 ár allt fram til skila verkefnisstjórnarinnar. Við höfðum ákveðna sýn um að setja málið í þennan sáttafarveg þó að menn, eins og ég kom að í ræðu minni, hafi haft skiptar skoðanir á því hvað ætti að virkja og hvað ætti að vernda. Ég hafði enga ástæðu til að ætla annað þegar við síðan samþykktum að fara í 12 vikna lögformlega ferlið en að við gætum byggt á því trausti sem við höfum byggt á í þessu langa ferli. Það voru engar vísbendingar í ferlinu af hálfu fyrrum stjórnarflokka, hvort sem það var Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur eða Samfylking þótt hún vilji gleyma því að hún hafi verið með okkur í stjórn í tæp tvö ár, um að við ætluðum að víkja frá því þótt við höfum mörg hver orðið fyrir ákveðnum þrýstingi utanaðkomandi aðila um að reyna að hnika þessu og hinu til. Við sögðum einfaldlega: Málið er í ákveðnu ferli og við ætlum að bíða og sjá hvernig úr því vinnst. Þannig var það.

Ég verð að segja að ég bar, og ber kannski enn þá, það mikið traust til fólks, til mannskepnunnar, að ég hafði ekki ástæðu til annars en að treysta því lögformlega ferli. Þess vegna er svo sárt að sjá hvernig það var tekið og, ég ætla ekki að segja misnotað en það er alveg ljóst að málið er að mínu mati notað, ekki bara notað sem pólitískt mál til að koma ákveðnum pólitískum áherslum áfram heldur má kannski segja til að smala köttum, eins og menn þekktu hér fyrr á þessu kjörtímabili. Það hvernig málið er samsett er hluti af því að halda ríkisstjórninni saman. Að mínu mati er ekki verið að forgangsraða í þágu nýtingar og verndunar. Málið er fyrst og fremst sett fram með það í huga að halda ríkisstjórn Íslands saman.