141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka mjög hreinskiptið svar. Ef það er staðreyndin að málið sé notað til að halda ríkisstjórninni saman, til að halda þessari vanhæfu ríkisstjórn við völd, hugsar sú ríkisstjórn ekki um almannahag í þessu landi enda vitum við hvernig ástandið á þjóðarbúinu er eftir valdatíð þeirrar ríkisstjórnar. Ég sagði í ræðu í gær að sem betur fer er stutt fram að kosningum og ég bið landsmenn alla að sýna þolinmæði þar til þessi ríkisstjórn fer frá.

Það er grafalvarlegt mál að samfélagssáttmáli eins og rammaáætlun var orðin, og á að vera til framtíðar litið, skuli vera notaður sem pólitískt bitbein. Við sjáum svo sem líka hjá ríkisstjórninni að stjórnarskráin sem á að vera samfélagssáttmáli þjóðarinnar allrar en ekki bara stefnuskrá vinstri flokkanna skuli vera þetta mikla og stóra bitbein eins og rammaáætlunin er. Mér finnst það alvarleg tíðindi og spyr því hv. þingmann: Er ekki orðið tímabært að boða til kosninga í ljósi þessa?