141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir ræðu hennar. Í fyrri hlutanum varð henni nokkuð tíðrætt um samráðið og sáttina sem hugmyndafræðin á bak við rammaáætlun byggði á, þ.e. að menn reyni að ná saman um mjög ólík sjónarmið allt frá þeim sem vilja vernda mest yfir til hinna sem vilja virkja mest og reyna að finna skynsamlegustu leiðina byggða á vísindalegum grunni.

Nú hefur það komið fram að bæði hv. þingmaður og sá sem hér stendur telji það plagg sem liggur fyrir vera orðið rammpólitískt þar sem því hefur í meðförum hæstv. umhverfis- og iðnaðarráðherra verið breytt verulega út frá niðurstöðu verkefnisstjórnarinnar. Það er kannski ekkert skrýtið því að í fyrirspurn minni til ráðherranna um samráðshópinn kom það fram að starfsmenn í þeim hópi voru starfsmenn ráðuneytanna, ráðherranna eðlilega, og aðstoðarmenn þeirra og síðan var haft samráð við formenn faghópanna. Þegar það lá fyrir var haft samráð við þingflokka stjórnarflokkanna. Það virðist ekki hafa verið meiningin á neinum tímapunkti hjá hæstv. ráðherrum sem fóru með málið að hafa samráð við stjórnarandstöðuna til að reyna að fá fram einhverja sameiginlega niðurstöðu. Þess vegna er auðvitað ekkert skrýtið að mjög ólík sjónarmið séu uppi í umræðunni og að hún sé talsvert mikil af því að aldrei var gerð tilraun til að ná einhverju samkomulagi við stjórnarandstöðuna.

Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún telji hægt á þessum tímapunkti að ná fram einhverri samstöðu og þá hvernig slík vinna ætti að fara fram í umræðunni og þeirri stöðu sem málið er í í augnablikinu.