141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir að það væri svo sem skynsamlegt. Ég veit hins vegar ekki hversu líklegt er að ríkisstjórnarflokkarnir séu tilbúnir að vísa málinu til verkefnisstjórnarinnar. Við framsóknarmenn höfum bent á að það væri hugsanlegt að vísa því til ríkisstjórnarinnar aftur vegna þess að í umræðunni finnst mér sjónarmið þó nokkurra stjórnarliða benda til að þeir viðurkenni að verulegt ójafnvægi sé í þessari tillögu, þ.e. að jarðvarmavirkjanirnar sem eru í nýtingarflokki séu þar með öllum ábendingum um alls kyns galla við það sem koma fram í meirihlutanefndarálitinu, en hins vegar hafi vatnsaflsvirkjunum verið hent út.

Nú er hv. þingmaður fyrrverandi ráðherra og því vil ég spyrja um frumkvæðisskyldu, rannsóknarskyldu ráðherra, því það hefur komið í ljós að meðal annars á orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins er sérstaklega talað um Hagavatnsvirkjun og Hólmsárvirkjun. Það vantaði gögn (Forseti hringir.) um Hólmsárvirkjun og svo virðist sem menn hafi sagt að þau gögn vantaði og ekki ætti að afgreiða málið, þrátt fyrir að í orkuskrifstofu iðnaðarráðuneytisins sé bent á að þetta séu mjög góðir kostir. Hefði ekki verið eðlilegt (Forseti hringir.) að ráðherrarnir hefðu notað tíma sinn, og það væri frumkvæðisskylda þeirra, að rannsaka (Forseti hringir.) gögnin og leggja þau síðan faglega fyrir og bæta þar með þetta jafnvægi á milli jarðvarma og vatnsafls?