141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:25]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil kannski byrja á því að hvetja þingmenn til að fara varlega þegar þeir tala um hversu mikil sátt og mikið traust hafi ríkt um þessi mál síðastliðin 13 ár. Það hafa auðvitað verið gríðarlega hatrammar og sárar deilur um málin í samfélaginu, sem hafa sært einstaklinga, fjölskyldur og samfélög og valdið óafturkræfum spjöllum á landinu sem enn er tekist á um. Ég hvet hv. þingmenn til að tala varlega um hversu ofboðsleg sátt hafi ríkt um þau mál.

Ég er persónulega ekki pólitískt sátt. Þetta er ekki mín persónulega pólitíska rammaáætlun eins og stöðugt er látið í veðri vaka, að hér sé verið að skrifa pólitíska rammaáætlun. Hún væri allt öðruvísi ef ég fengi að skrifa hana, þó nokkuð mikið öðruvísi. En ég beygi mig undir þá aðferðafræði sem ríkt hefur sátt um á Alþingi meðal annars frá því að þau lög voru sett sem við framfylgjum og þar sem kveður á um það ferli sem hefur verið haft í heiðri, t.d. ferli opinna umsagna.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann sérstaklega um er vatnsafl, þ.e. vatnsaflsvirkjanir, vegna þess að mér hefur fundist talað nokkuð fjálglega um vatnsaflið í þessari umræðu. Staðreyndin er auðvitað sú að þær valda gríðarlegum umhverfisáhrifum og við höfum gengið svo hart fram í vatnsaflinu. Mig langaði að spyrja hvort hv. þingmaður sé sammála því að það sé mikilvægt að vernda tiltekin vatnsföll frá upphafi (Forseti hringir.) til ósa, rétt eins og góðir sjálfstæðismenn komu að varðandi Jökulsá á Fjöllum sem nokkur samstaða ríkti um. Telur hann (Forseti hringir.) til dæmis mikilvægt að Hvítá í Árnessýslu, Búðartunguvirkjun sem hefur áhrif á rennsli Gullfoss, fari úr bið í vernd (Forseti hringir.) eða Skjálfandafljót, Aldeyjarfoss sem er einhver fegursti foss landsins og (Forseti hringir.) … það ætti til framtíðar að fara í nefnd. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður mikilvægt að nýta til heilla ósnortin (Forseti hringir.) landsvæði og vernda þau?