141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:33]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Út af umræðunni milli hv. þingmanna á undan mér vil ég byrja á að nefna t.d. virkjunarkost í þessari rammaáætlun sem er settur í biðflokk en að mínu mati og samkvæmt einkunnum verkefnisstjórnarinnar ætti heima í verndarflokki og það er Skatastaðavirkjun í Skagafirði alveg augljóslega. Og það er alveg óskiljanlegt miðað við einkunnagjöfina að sá kostur skuli vera í bið en ekki vernd. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) En svona nálgast ég málið og svona vil ég að við nálgumst málið til að ná málamiðlun. Það eru ekki allir í mínum flokki sammála mér um það, ekki norður í Skagafirði og ekki í þingflokknum en svona er málið vaxið.

Mig langar, virðulegi forseti, sérstaklega af því að við erum í aðdraganda fjárlaga fyrir árið 2013 og alls vandræðagangsins sem er í þeim, að gera efnahagsleg áhrif þessarar rammaáætlunar að umtalsefni. Ég ætla að nota til grundvallar framkvæmdarskýrslu Landsvirkjunar þar sem reiknað er með að ákvarðanir um næstu virkjunarkosti hefðu verið teknir árið 2011 og virkjunarframkvæmdir væru þá að koma af fullum þunga inn í efnahagsumhverfi okkar núna.

Samkvæmt þeirri áætlun er eingöngu verið að líta til virkjunarkosta sem ættu að vera í nýtingarflokki samkvæmt niðurstöðu verkefnisstjórnar. Það er áætlað að fjárfesting í orkumannvirkjum og í uppbyggingu iðnaðar samhliða orkumannvirkjunum muni til ársins 2020 nema um 1.000 milljörðum. Í dag erum við í þeirri stöðu að það er einhver minnsta fjárfesting í íslensku atvinnulífi á lýðveldistímanum, en hérna værum við að tala um 1 þús. milljarða. Það er fjárfesting í orku og iðnaði ásamt afleiddum störfum sem mundu bæta hagvöxt um 1,4% að jafnaði á ári. Á árunum 2013 og 2014, þ.e. á næsta ári, værum við með um 2,5% viðbótarhagvöxt þannig að við værum að nálgast um 5% hagvöxt á næsta ári hefði þessu verið fylgt. Það þýða um 5 þúsund störf samkvæmt þumalputtareglunni, 5 þúsund störf í atvinnuleysinu sem við búum enn við.

Þetta eru svona 1–2 þúsund störf að jafnaði sem munu skapast á hverju ári og þau verða um 11 þúsund þegar mest verður. Þá tala menn um þenslu, að þetta muni valda þenslu í efnahagsumhverfi okkar eins og oft hefur verið gagnrýnt, en þannig er að almennt efnahagsástand, staða hagsveiflunnar, skiptir höfuðmáli þegar hagvaxtaráhrif stórfjárfestinga eru metin. Ef samdráttur og atvinnuleysi eru til staðar og framleiðsluþættir hagkerfisins eru ekki fullnýttir á hverjum tíma þá munu fjárfestingarútgjöldin leggjast óskoruð til hagvaxtar og án ruðningsáhrifa og þenslu. Það er nákvæmlega staðan sem við erum í. Við erum með mikinn slaka í hagkerfinu, við höfum þörf fyrir fjárfestingu, við höfum þörf fyrir fleiri verk fyrir vinnandi hendur og við höfum fullt af tækjum sem standa ónotuð allan daginn. Það er kallað framleiðsluslaki. Við getum framleitt miklu meira með núverandi vinnuafli og núverandi tækjabúnaði sem við eigum en við erum að gera. Ef þessi fjárfesting hefði farið af stað þá hefðu ruðningsáhrifin eða þenslan ekki verið nein. Það er skoðað mjög gaumgæfilega í fjárfestingaráætlun Landsvirkjunar hver áhrifin yrðu á þessum verktíma í heildina og auðvitað yrði ríkisstjórn á hverjum tíma að taka mið af því í framkvæmdaráætlunum sínum hvernig hún mundi draga úr til að auka ekki á þensluáhrifin.

Ég talaði um fjárfestinguna. 1 þús. milljarða til ársins 2020, bein erlend fjárfesting í orkumannvirkjum og í uppbyggingu fyrirtækja. En hver yrði svo niðurstaðan þegar framkvæmdartíma yrði lokið og þetta væri tekið til starfa? Þá er áætlað að arðgreiðslur og skattgreiðslur til ríkissjóðs gætu numið allt að 112 milljörðum á ári. Virðulegi forseti, ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að á síðasta ári greiddi Landsvirkjun 5 milljarða í arð til ríkisins og hafði þá verið í arðgreiðslustoppi í einhver ár. Við erum að tala um á annað hundrað milljarða á ári og sjáið þið hvað þetta getur þýtt fyrir komandi kynslóðir. Það er sagt að við megum ekki taka ákvarðanir fyrir komandi kynslóðir. En hvað er nú ljúfara fyrir komandi kynslóðir en geta gengið að góðu heilbrigðiskerfi, góðu menntakerfi, góðu félagslegu kerfi sem við mundum nota þessa fjármuni til að byggja upp. Þetta getur staðið undir öllum greiðslum vegna háskóla, framhaldsskóla, menningar, íþrótta- og trúmála, löggæslu og fangelsismála í landinu og dómstóla, eða við gætum sent hverjum einasta einstaklingi 280–320 þús. kr. á ári inn um bréfalúguna.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég talaði um að það hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á þessum málum við þær erfiðu aðstæður sem eru í okkar samfélagi sé ekkert annað en skemmdarverk og þetta er það sem ég á við. (Forseti hringir.) Þrátt fyrir öll sjónarmið um verndun og nýtingu þá er verið að tala um virkjunarkosti sem eru nýtingarflokki og það er nánast (Forseti hringir.) glæpsamlegt og skemmdarverk að við skulum hafa látið tækifærin fram hjá okkur (Forseti hringir.) renna og ekki tekið þessar ákvarðanir.