141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:41]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hið alvarlega í þessu máli er að við skulum ekki hafa verið komin af stað. Rammaáætlun er auðvitað grunnurinn að einhverri sátt í þessu máli. Í þeim dæmum sem ég fór yfir áðan um efnahagslegu áhrifin þá er ég ekki að tala um einhverja virkjunarkosti sem augljóslega eiga að vera í vernd. Við erum tilbúnir að ganga langt í þeim efnum. En það er fjöldi virkjunarkosta í landinu sem er sjálfsagt að nýta.

Vinstri flokkarnir hafa ekki getað komið sér saman um þessi skref og alveg ljóst, miðað við núverandi rammaáætlun, sem er afrakstur vinnu hæstv. umhverfisráðherra og atvinnuvegaráðherra, að vinstri flokkarnir horfa ekki til atvinnuuppbyggingar og fjárfestingar í íslensku samfélagi. Þeir horfa til annarra þátta og eru með aðrar áherslur.

Það var kallað hér í gær að umtalsverð tækifæri fælust í óspilltri náttúru og að umhverfismál væru mikilvægust í atvinnulífi framtíðar. Við getum alveg verið sammála um það. En hefur sú virkjunarstefna sem hefur verið rekin á Íslandi og atvinnuuppbygging henni tengd eitthvað eyðilagt ímynd Íslands? Er það ekki einmitt á alþjóðavettvangi sem við státum okkur af því hvernig við stöndum fremst þjóða í því að virkja endurnýjanlega orkugjafa? Voru ekki fréttir af því í blöðunum í gær að við urðum að hjálpa eyverjum í Karíbahafi með jarðborarnir og að setja upp jarðvarmavirkjanir? Þeir eru ekki að velta fyrir sér hvort það verði einhver umhverfisspjöll af því að setja niður holu. Þeir eru að velta fyrir sér að þeir fái ódýrt og gott rafmagn frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

Auðvitað verður þjóðin að treysta því að hér verði breytt um kúrs eftir kosningar. Hér verður að breyta um kúrs. (Forseti hringir.) Það er ekki hægt að halda svona áfram. Við munum ekki vinna okkur upp úr þessum efnahagslegu áföllum, geta tekið á skuldamálum ríkisins og (Forseti hringir.) málefnum skuldugra fyrirtækja og heimila í landinu öðruvísi en stíga stór skref á orkusviðinu.