141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:46]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræðan um önnur atvinnutækifæri og aðrar áherslur er óskiljanleg. Ég er mjög fylgjandi því að við horfum til þess að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Ég er mjög fylgjandi því að við horfum til þess að efla nýsköpun í landinu, efla veg skapandi greina. Ég tel að við eigum að gera það. Ég held að við eigum að reyna að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi eins og við getum og ég hef mikla trú á því að þær greinar sem ég nefni hérna og margar aðrar geti skilað okkur miklu í framtíðinni.

En af hverju getur þetta ekki unnið saman? Hvað er á móti því að þetta vinni saman? Hvað er á móti því að byggja hér upp öflugan iðnað byggðan á skynsamlegri nýtingu orkuauðlinda okkar, fjölbreyttan iðnað sem skapar okkur mikil útflutningsverðmæti og stendur undir miklu af kostnaði ríkisins, samfélagslegum kostnaði okkar? Hvað er á móti því að gera hitt samhliða? Hefur það ekki einmitt verið stóriðjan og sjávarútvegurinn sem hafa verið, með framlögum sínum og stuðningi, uppspretta mestu nýsköpunar í landinu? Bakhjarl þeirra fyrirtækja sem hafa náð hvað lengst í mörgum tilfellum. Er það ekki nákvæmlega þannig?

Ég held að ef málin eru skoðuð þá er mikið samhengi þarna á milli, sem betur fer. Auðvitað þurfum við að hvetja þessi öflugu fyrirtæki og skapa þeim grundvöll til að fjárfesta í öðrum fyrirtækjum, í nýsköpun og hinum skapandi greinum auk þess samfélagslega stuðnings sem þau hafa víða látið af sér leiða.

Við verðum að horfa til allra átta í þessu. Það er engin þjóð sem ég þekki sem býr við það að hafa efni á því að nýta ekki náttúruauðlindir sínar. (Forseti hringir.) Er hægt að nefna einhverja þjóð sem við berum okkur saman við sem nýtir ekki náttúruauðlindir sínar til framdráttar fyrir þjóð sína með skynsömum hætti? (Gripið fram í: Nei.) Ég held ekki. (Forseti hringir.) Þessi umræða af hálfu ríkisstjórnarflokkanna er algerlega óskiljanleg, virðulegi forseti.