141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að spyrja hvort hæstv. umhverfisráðherra hlýði á mál mitt. Ég fagna því að hæstv. umhverfisráðherra er komin hingað til að vera viðstödd umræðuna og ástæðan fyrir því að ég spyr er að mig langar til að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra. Það háttar þannig til að þessum spurningum verður að beina til hæstv. ráðherra til að von sé að svör fáist. Ég vil óska eftir því að hæstv. ráðherra verði viðstödd þessa efnislegu umræðu. Það er út af fyrir sig gott að upphafsmaður málsins á ákveðnu tímabili, hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra, er hér viðstödd en það eru hins vegar spurningar sem lúta að efni sem gerðist eftir að hæstv. iðnaðarráðherra vék úr ráðuneyti sínu og fór til annarra starfa sem gera það að verkum að ég óska eftir því að hæstv. ráðherra sé hér. Ég fagna því að hæstv. ráðherra er viðstödd.

Ástæðan fyrir því að ég óska eftir aðkomu ráðherra er sú að það má segja að þau átök sem núna eiga sér stað um rammaáætlun sem við erum að ræða hófust eftir að hinn svokallaði faghópur eða verkefnisstjórnin lauk sinni vinnu og eftir að málið hafði birst í drögum að þingsályktunartillögu sem byggðist algerlega á vinnu verkefnisstjórnarinnar. Þá tók við nýr fasi. Það er rétt að Alþingi ákvað samhljóða að tveimur ráðherrum, eins konar ráðherradúett, yrði falið að fara með málið eftir að búið var að kynna á opinberum vettvangi drögin að nýju þingsályktunartillögunni. Þá var gert ráð fyrir því að hæstv. ráðherrar færu efnislega yfir málin og ég ítreka og undirstrika efnislega, í trausti þess að unnið yrði í sama anda og hafði verið gert fram að því að Alþingi ákvað að setja á laggirnar eins konar stoppistöð, eins og ég hef kallað þetta, þar sem hæstv. ráðherrar hefðu tök á því að kalla eftir frekari umsögnum og athugasemdum. Umsagnir og athugasemdir höfðu auðvitað borist á fyrri stigum, en engu að síður varð niðurstaðan sú að ráðherrarnir hefðu þetta tækifæri til að kalla eftir frekari umsögnum og athugasemdum og eftir atvikum upplýsingum þar sem þær var talið skorta. Á þeim grundvelli lagði síðan hæstv. umhverfisráðherra fram þetta plagg, þá þingsályktunartillögu sem við ræðum nú.

Það sem gerðist var að í þessari nýju tillögu var gengið út frá því að taka burtu sex virkjunarkosti, þ.e. þrjá virkjunarkosti í neðri Þjórsá, Urriðafossvirkjun, Hvammsvirkjun og Holtavirkjun, og jafnframt tvo aðra virkjunarkosti eins og við öll þekkjum. Þetta hefur í för með sér að mati Orkustofnunar: „að hagkvæmustu og best rannsökuðu virkjunarkostirnir verði fluttir úr orkunýtingarflokki í biðflokk.“ Þá eru virkjunarkostir í háhita, Hágönguvirkjun 1 og 2, sem og virkjunarkostur í vatnsafli, Skrokkölduvirkjun, einnig fluttir úr nýtingarflokki í biðflokk, „án þess að faglegum forsendum sem lágu til grundvallar mati faghópa sé hnekkt.“ Ég undirstrika það sem Orkustofnun segir, án þess að faglegum forsendum sem lágu til grundvallar mati faghópa sé hnekkt.

Nú ætla ég ekki að ræða þessar virkjanir sérstaklega, heldur vekja athygli á öðru. Það komu ekki aðeins ábendingar og áskoranir um þessa sex virkjunarkosti, sem hæstv. umhverfisráðherra í félagi við hæstv. iðnaðarráðherra, atvinnuvegaráðherra, ákvað að ýta út úr þingsályktunartillögunni frá því sem lagt hafði verið af stað með í drögunum sem ég gerði að umtalsefni, heldur komu líka fram ábendingar um aðra virkjunarkosti. Ég tel að hæstv. ráðherra hefði átt að fara með þær með sama hætti, taka efnislega afstöðu til þeirra breytinga sem sannarlega komu upp eftir að verkefnisstjórnin lauk vinnu sinni. Þar á ég í fyrsta lagi við Hólmsárvirkjun.

Það hefur verið upplýst, m.a. á sameiginlegum fundi umhverfis- og samgöngunefndar og atvinnuveganefndar — ég hygg að það hafi verið sameiginlegur fundur frekar en fundur atvinnuveganefndar, en það skiptir ekki öllu máli. Það var upplýst af formanni verkefnisstjórnar að mistök hefðu orðið. Þegar verkefnisstjórnin vann að málum sem lutu að Hólmsárvirkjun var verið að vinna með gömul gögn, gamlar úreltar forsendur. Auðvitað getur slíkt alltaf hent. Þegar það uppgötvaðist undir lokin, í bláendann, var einfaldlega of seint að snúa við. Þá hefði maður getað ímyndað sér að á hinni nýju stoppistöð, þ.e. hinum nýja vettvangi í ferlinu sem var búinn til með löggjöfinni sem menn vísa svo mjög til, hefði einmitt verið hægt að taka efnislega afstöðu til þess, á grundvelli nýrra gagna, hinna raunverulegu gagna sem bæri að leggja til grundvallar og meta faglega og efnislega, hvar ætti að skipa Hólmsárvirkjun í flokk.

Hólmsárvirkjun er núna samkvæmt þingsályktunartillögu í biðflokki. Það byggðist á því að verkefnisstjórnin taldi sig ekki hafa nægilegar forsendur til að skipa henni í nýtingarflokk þó að margvísleg rök mæltu með því, eins og kemur fram í flokkuninni. En stóra málið er að sú flokkun byggðist á úreltum gögnum. Hún byggði ekki á því nýjasta sem voru breyttar forsendur umhverfinu í hag án þess að raskað væri í neinu sem máli skiptir arðsemismarkmiðunum sem lágu til grundvallar virkjuninni. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Af hverju var það ekki þannig? Af hverju var Hólmsárvirkjun ekki tekin sömu tökum og virkjanirnar sex sem ýtt var út úr drögunum að upphaflega plagginu? Það er mjög mikilvægt að fá svar við þessu vegna þess að það vekur auðvitað athygli að öll áherslan í vinnu ráðherradúettsins — ég veit að ég móðga ekki hæstv. ráðherra, gamla söngkonu, að kalla þetta ráðherradúett — sem undirbjó málið var að ýta inn í biðflokk virkjunum sem áður höfðu verið í nýtingarflokki samkvæmt drögum að þingsályktunartillögunni. Samt sem áður tóku ráðherrar ekki efnislega afstöðu til Hólmsárvirkjunar til að mynda, sem hefði bersýnilega lent í nýtingarflokki við þessar breyttu aðstæður ef málið er skoðað efnislega og faglega yfir það farið.

Sama er að segja um aðra virkjun sem líka hefur verið umtöluð og þar á ég við Hagavatnsvirkjun. Það er rétt og það hefur verið margoft sagt hérna að fram komu ýmsar athugasemdir og ábendingar. Þegar maður les umsagnirnar um Hagavatnsvirkjun er yfirgnæfandi í þeim ákall um að hún fari í nýtingarflokk. Það ákall kemur til dæmis frá Bláskógabyggð, sveitarfélaginu þar sem virkjunin yrði staðsett, frá ferðamálafulltrúa uppsveita Árnessýslu, sem ætti að hafa mikla hagsmuni af því að vel sé farið með umhverfið, frá Íslenskri vatnsorku, sem er mögulegur virkjunaraðili, frá landeigendum Úthlíðartorfu og Kristni Briem. Allar þessar umsagnir eru í þá veru að færa skuli Hagavatnsvirkjun úr biðflokki í orkunýtingarflokk.

Hagavatnsvirkjun er dálítið merkileg virkjun. Hvernig varð sú hugmynd til? Hún varð til upphaflega sem eins konar landgræðsluverkefni. Hugmyndin var sú að hækka vatnsyfirborð Hagavatns til þess horfs sem vatnið var í áður til að draga úr sandfoki og niðurbroti á náttúrunni. Það kom til dæmis fram hjá fulltrúa Landgræðslunnar sem kom fyrir atvinnuveganefnd að sandfokið væri gríðarlega alvarlegt umhverfisvandamál. Ein aðferðin væri að reyna að hefta það með því að hækka vatnsyfirborðið. Menn hafa meira að segja verið að velta því fyrir sér, af fjandsemi sinni við virkjunarhugmyndir per se, að það væri kannski einnar messu virði að búa til einhvers konar stíflu og hækka þannig vatnsyfirborðið og með slíkri manngerðri aðgerð að reyna að draga úr þessu mikla sandfoki. En það blasir auðvitað við að ef farið er í slíkar aðgerðir er arðsamast, skynsamlegast og sparar ríkissjóði fjármuni að nýta um leið vatnið sem miðlunarlón. Þarna er reyndar verið að tala um einhvers konar rennslisvirkjun sem hefði um leið þessi jákvæðu umhverfislegu áhrif.

Þegar maður skoðar umsagnirnar sem bárust um þessa tilteknu virkjun blasir við að ef hæstv. ráðherrar hefðu viljað taka þessar tvær virkjanir sömu tökum og þeir tóku virkjanir í neðri hluta Þjórsár og aðrar virkjanir sem ég nefndi hefðu þeir fært þessa virkjun eins og Hólmsárvirkjun úr biðflokki í nýtingarflokk með skírskotun til þessara umsagna og ábendinga. Ef einhver alvara væri á bak við vinnu hæstv. ráðherra á grundvelli hinna nýju laga (Forseti hringir.) hlyti það að hafa orðið niðurstaðan. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvers vegna var það ekki gert? Hvers vegna er þetta ósamræmi?