141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:15]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Uppblástur, sandfok og jarðvegseyðing er eitthvert mesta umhverfisvandamál sem við eigum við að glíma á Íslandi. Fulltrúar Landgræðslunnar sem heimsóttu nefndina sýndu með myndrænum hætti hvernig þetta birtist fólki og hvaða áhrif þetta hefur, ekki bara á nærumhverfið heldur mjög stórt svæði, þar á meðal höfuðborgarsvæðið. Það er því heilmikið tilvinnandi að reyna að draga úr þessum uppblæstri og það er svo merkilegt að Hagavatnsvirkjun er og getur verið liður í því.

Ég veit að hæstv. ríkisstjórn segist á tyllidögum vilja hafa græn viðhorf í forgrunni og bara af þeirri ástæðu hefði maður haldið að fullt tilefni hefði verið til að horfa sérstaklega til Hagavatnsvirkjunar í ljósi þessa. Einnig vegna þess sem ég ítrekaði áðan að það er beinlínis gert ráð fyrir því með nýju lögunum, þeirri lagabreytingu sem samþykkt var, að tækifærið yrði notað til að fara faglega yfir hluti ef nýjar upplýsingar bærust og umsagnir gæfu tilefni til. Það hefur augljóslega ekki verið gert í þessu tilviki.

Ég ætla að vekja athygli á einu. Menn tala oft sem svo að virkjanir og ferðaþjónusta fari illa saman. Það á ekki við í þessu tilviki. Þvert á móti bentu ferðaþjónustuaðilar á þessu svæði á að virkjun hefði í för með sér að þeim slóðum sem liggja að vatninu, sem menn fara um á stærri bílum en hamla för annarra, yrði breytt í vegi. Það væri auðvitað hægt að kveða á um með umhverfismati hversu vel uppbyggðir þeir yrðu. Þarna væri hægt að opna ferðamönnum, en á þessu svæði fer fjöldi þeirra vaxandi, leið inn á nýtt svæði til að skoða. Við sjáum að öll umhverfissjónarmið (Forseti hringir.) liggja þarna til grundvallar, en einnig hagkvæmnisrök. Þess vegna vekur mikla furðu og er enn þá ósvarað af hverju í dauðanum þessi virkjun var áfram látin vera í biðflokki.