141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ágætu ræðu. Mig langar að spyrja hvort hún telji að það samráðsferli sem verkefnisstjórnin átti sjálf, samkvæmt sínu erindisbréfi við alla þá sem höfðu áhuga á því að tjá sig um málið, hefði verið fullnægjandi. Að mínu viti var viðhaft mjög viðamikið samráð og ég tel að það hafi verið fullnægjandi. Hv. þingmaður minnist aðeins á það í ræðu sinni, er hún sammála mér um þetta?

Á blaðsíðu 23–25 í 13. kafla í nefndaráliti meiri hlutans eru athugasemdir eða ábendingar meiri hluta nefndarinnar um áherslur til næstu verkefnisstjórnar. Af því að hv. þingmaður talaði um að hún væri meira að tala um formið og velta því fyrir sér og hvernig þetta lögformlega allt saman ætti að ganga fyrir sig, langaði mig að vita hvort hún væri búinn að setja sig inn í þær hugmyndir og ábendingar meiri hluta nefndarinnar. Mér þykir kaflinn mjög athygliverður. Þarna er margt alveg ágætt en þegar maður lítur yfir það í heild tel ég að á ferðinni séu það viðamiklar breytingar, þetta mun allt saman fara inn í löggjöfina, að ferlið verði orðið það flókið að verði það að veruleika verði þess langt að bíða þar til nokkur virkjunarkostur færist úr biðflokki í nýtingarflokk. Mig langar að vita hvort hv. þingmaður sem er lögfræðingur, hafi skoðað þennan kafla.