141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög góð spurning hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur. Hún fór yfir erindisbréfið, hvenær verkefnishópurinn hafi átt að skila af sér o.s.frv. og spyr jafnframt í leiðinni hvenær ferlinu var breytt. Þáverandi iðnaðarráðherra gerði ekki ráð fyrir að því yrði breytt fyrr en búið væri að skjóta undir það lögformlegri festu eins og gert var. Þar með átti það að fara óbreytt í gegn, m.a. vegna þessa góða og víðtæka samráðs.

Ég veit ekki með vissu hvenær því var breytt þannig að ég álykta sem svo að svar við þeirri spurningu megi finna í gögnum sem liggja að baki frumvarpi til laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, sem voru samþykkt í þinginu 2011. Ég hef ekki lesið þá grein nýlega þar sem þetta 12 vikna ferli fer af stað varðandi þær umsagnir sem voru settar þar inn í frumvarpið. Ef það finnst ekki í greinargerð um þá lagagrein rökstuðningur fyrir því hvers vegna var breytt af leið hljóta það að vera gögn sem liggja inni í hv. utanríkisráðuneyti. Þingmenn eru svo heppnir í dag að hér situr hæstv. umhverfisráðherra og getur svarað því hvaða gögn liggja að baki því að skipt var um kúrs í því efni. Ég reikna með að það megi finna skýringuna í gögnum sem liggja að baki frumvarpi þessarar nefndar. Ég vona að það svari spurningunni og varpi nýju ljósi á umræðuna.