141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:37]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið en ég verð að segja að ég er ekki alveg sammála því að tillögur okkar sjálfstæðismanna og framsóknarmanna séu þær sömu því að við erum einmitt að taka þetta frá ríkisstjórninni. Við viljum ekki fela ríkisstjórninni að vinna málið áfram heldur láta það í hendur þeirra faglegu sjónarmiða og faglegu hópa sem unnu þetta verk áður en ríkisstjórnin setti pólitísku fingraför sín á það. Þar eru áherslur okkar kannski ekki alveg samhliða.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, ef þessi rammaáætlun verður samþykkt með minnsta mögulega mun — og ég leyfi mér að fullyrða það. Ég horfi á hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur sem ég er ekki alltaf sammála í þessum málum. Ég veit að við höfum ekki sömu skoðun á einstaka þáttum hérna en ég leyfi mér að fullyrða að hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er heldur ekki sátt við þá niðurstöðu sem yrði þá samþykkt með minnsta mögulega mun. Þetta er þá einhver lægsti samnefnari sem enginn er ánægður með og það sem verra er, lægsti samnefnari út úr því faglega ferli sem við vorum að binda vonir við að okkur tækist að hafa þetta í. Mig langar að spyrja hv. þingmann, ef það gerist, hvort hún telji það lok þessa ferlis. Er þetta þá bara ónýtt? Ég segi það fyrir mig og ég held að ég tali fyrir munn flestra ef ekki allra í mínum þingflokki, ef þingsályktunartillagan verður samþykkt eins og lagt er upp með núna þá lýsi ég mig algerlega óbundna af þessari rammaáætlun. Þá er þetta bara rammaáætlun þessarar ríkisstjórnar og henni verður breytt. Það er mjög miður, (Forseti hringir.) að ferlið fari út í þær ógöngur því ég veit að hvar sem við stöndum í þessu máli þá bundum við (Forseti hringir.) miklar vonir við að það mundi leysa deilur og vandamál en ekki skapa.