141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er dálítið erfitt að átta sig á því hvert verið er að stefna með þessari þingsályktunartillögu eins og hún liggur fyrir nú við síðari umræðu. Í raun má segja sem svo að þegar tillagan var lögð fram upphaflega hafi stefnan verið mjög skýr. Hún fólst í því að leggja litla sem enga áherslu á vatnsaflsvirkjanir en leggja höfuðáherslu á jarðhitavirkjanir. Það má kannski segja sem svo að ef við lesum bara textann eins og hann birtist okkur í tillögunni sjálfri sé ekkert hvikað frá því, því að meiri hluti nefndarinnar hefur afgreitt það frá sér óbreytt. Við verðum hins vegar að lesa textann jafnhliða nefndaráliti meiri hlutans og þá kemur svolítið annað hljóð í strokkinn. Þá kemur nefnilega fram að sagt er að skoða þurfi eitt og annað. Segja má að verið sé að útskýra fyrir okkur í býsna löngu máli að þrátt fyrir allt séu jarðhitavirkjanir býsna vondur kostur, þær séu mengandi, þær hafi þessi og hin áhrifin, þær hafi áhrif á umhverfið, þær hafi áhrif á andrúmsloftið og þar fram eftir götunum þannig að skilaboðin eru orðin mjög óskýr.

Hins vegar kemur fram í áliti Orkustofnunar þegar málið var lagt fram að þeir telja að með áherslunni á jarðhitavirkjanirnar en engri áherslu á vatnsaflsvirkjanirnar sé í raun og veru verið að stefna í hættu markmiðum um sjálfbæra uppbyggingu raforkuframleiðslunnar. Það eru nokkuð stór orð, það er dálítið merkilegur hlutur. Það sem greinilega er verið að segja er að með því að hverfa frá áherslunni á vatnsaflsvirkjanirnar, sem öll rök styðja annars, sé verið að leggja af stað út í eitthvert ferli þar sem óvissan er meiri, þar sem áhrifin verða miklu umdeildari, þar sem ýmsar spurningar vakna sem hefur að hluta til ekki verið svarað. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvernig lítur hann á þetta plagg þegar það er komið þangað sem það er í dag? Er það á vissan hátt tilræði (Forseti hringir.) … sjálfbæra orkunýtingu … framkvæmdanna?