141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:52]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir því sem maður hugsar betur um þetta plagg þar sem það er statt núna finnst mér birtast í því einhver pólitísk tvíhyggja. Annars vegar kemst meiri hlutinn að þeirri niðurstöðu að sennilega sé best að hafa það bara eins og ríkisstjórnin lagði upp með, að áherslan verði á þær háhitajarðhitavirkjanir sem Orkustofnun varar annars við. Orkustofnun bendir á að minni áhersla á vatnsaflsvirkjanir þýði það að markmiði um sjálfbæra uppbyggingu raforkuframleiðslu sé stefnt í hættu, samþykki meiri hlutinn það. Hins vegar er eins og meiri hlutinn hafi fengið efasemdir, samviskubit, og skrifar texta inn í nefndarálitið þar sem varað er við ýmsum þáttum varðandi jarðhitavirkjanirnar. Þar er efasemdum lýst og sagt að áleitnar spurningar hafi vaknað um sjálfbærni orkuvinnslunnar, sjálfa sjálfbærnina, grundvallaratriði, um mengun grunnvatns af völdum skiljuvökva eða affallsvatns, sem sagt um að neysluvatnið okkar kunni að mengast ef farið verði út í þessar virkjanir, að loft mengist af völdum brennisteinsvetnis, með öðrum orðum að andrúmsloftið sem við drögum að okkur mengist, og síðan kunni jarðvarmavirkjanir að kalla fram jarðskjálftavirkni.

Síðan er hnykkt á til að undirstrika alvöru málsins að veruleg umhverfisspjöll felist í hverri einustu virkjunarframkvæmd á háhitasvæði, en samt er tillagan sú að þessi svæði og virkjanir eiga eftir sem áður að fara í nýtingarflokk. Ég veit eiginlega ekki alveg á hvaða vegferð menn eru. Þeir hafna vatnsaflsvirkjunum, sem öll rík hníga til og valda mjög litlum umhverfislegum áhrifum, t.d. virkjanir í neðri hluta Þjórsár á manngerðum svæðum, en leggja síðan til að farið verði í virkjanir sem bæði mengi hjá manni andrúmsloftið og vatnið sem maður drekkur og kalli síðan fram jarðskjálfta ofan í kaupið. [Hlátur í þingsal.]