141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:16]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á því að segja að gefnu tilefni að ég lít svo á að þetta sé andsvar mitt til að spyrja hv. þingmann spurninga en ekki svara en það kemur kannski að því síðar að stjórnarþingmenn og jafnvel hæstv. ráðherrar sem skorað hefur verið á haldi ræður undir lok umræðunnar.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann að — ég kann að hafa misst þráðinn og þess vegna misskilið hana en ég skildi hana svo í upphafi máls hennar þegar hún var að tala um samráðið að verkefnisstjórn hefði réttilega haft gríðarlega mikið samráð. Ég skildi það þannig að hv. þingmaður hefði spurt hvers vegna hefði þá þurft samráð ráðherranna. Það er náttúrlega samkvæmt gildandi lögum (Gripið fram í.) sem samþykkt voru í þingsal að farið var í þetta samráð. (Gripið fram í.)

Mig langar að benda á eitt í því samhengi. Nú er það til dæmis alsiða að þegar ráðuneyti undirbúa frumvörp til að leggja fram á Alþingi þá eru slík mál sett í opið samráðsferli, kallað eftir umsögnum, ábendingum og athugasemdum. Þegar málið kemur síðan inn í þingið þá segjum við ekki: Þetta hefur verið gert í svo miklu samráði að við þurfum ekki frekara samráð. Við eigum auðvitað að líta þannig á málin að því meira samráð sem haft er því opnara og víðtækara er það í því sáttaferli sem lagt hefur verið upp með, að það sé af hinu góða og auk þess í samræmi við lög, (Forseti hringir.) eins og ég sagði.

Ég vildi bara árétta hvort þetta væri réttur skilningur (Forseti hringir.) eða hvort mér hefði misheyrst varðandi þetta atriði.