141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé alveg rétt hjá hv. þingmanni. Það var mjög lítill áhugi á málamiðlun, sérstaklega fann ég það á talsmanni málsins í nefndinni. Frá fyrsta degi skynjuðu nefndarmenn að þessi umfjöllun og þessi vinna ætti ekki að leiða af sér breiða málamiðlun.

Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að það stafi fyrst og fremst af stöðu málsins. Málið kom aldrei inn til þingsins eða nefndarinnar. Þingmenn meiri hlutans voru held ég meðvitaðir um að það kæmi inn eingöngu til að fara óbreytt út aftur. Það var aldrei ætlunin að ná neinni málamiðlun. Í rauninni höfðu ríkisstjórnarflokkarnir samið um, eins og ég kom inn á hérna áðan, að rammaáætlunin væri ESB-mál Vinstri grænna og ESB-sinnar Samfylkingarinnar gáfu þess vegna eftir. Þegar menn hófu nefndarvinnu, eins og hv. þingmaður bendir á og ég kom inn á í ræðu minni varðandi jarðvarmavirkjanirnar, þá var búið að semja um að taka ákveðnar vatnsaflsvirkjanir út og síðan varð að nota vinnuna til að girða fyrir jarðvarmavirkjanirnar með öðrum hætti en hafa þær þó inni.

Það er í ljósi alls þess ferlis sem við höfum orðið vitni að núna að umræðan er orðin svona löng. Það er líka út af því sem menn tala um að þessi rammaáætlun sé bara til skamms tíma, hún sé bara til sex mánaða. Það er ekki hugmyndafræðin sem lagt var upp með heldur var lagt upp með að ólík sjónarmið tækjust á, aðilar á báðum hliðum þyrftu að gefa eftir og svo yrði einhver niðurstaða. Lokaniðurstaðan (Forseti hringir.) er að mínu mati óravegu frá (Forseti hringir.) upphaflegri hugmyndafræði.