141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Leiðarljósið sem var kveikt við upphaf þessa ferlis, eftir að ríkisstjórnin var komin með málið aftur í sínar hendur, var að stækka skyldi biðflokkinn og verndarflokkinn, færa úr biðflokki í verndarflokk og úr nýtingarflokki í biðflokk. Þar með var búið að þrengja mjög í rauninni það svigrúm sem nefndin hafði til að ljúka málinu með nokkrum öðrum hætti en þeim sem ríkisstjórnin lagði upp með. Það var auðvitað skýr hugsun á bak við það vegna þess að með þeirri niðurstöðu sem ríkisstjórnin hafði komist að var búið að búa til það sem menn hafa kallað lægsta samnefnara sem dygði til að koma þessu tiltekna máli fram.

Það sem er hins vegar mikið áhyggjuefni er það sem gerðist á lokametrum málsins og ég hef áður farið yfir og ætla aðeins að rifja upp. Á sínum tíma var lögunum breytt til að gera aðkomu ráðherranna að málinu mögulega. Við samþykktum það á Alþingi. Ég held að ekki hafi hvarflað að neinum að það mundi í sjálfu sér leiða til þess að menn tækju sig til og mætu með þeim hætti að afstaðan yrði sú að þessum sex virkjunarkostum yrði hent út úr þingsályktunartillögunni og hins vegar yrði lokað á að taka efnislega á ýmsum öðrum kostum sem þó voru uppi á borðinu af því að þeir hefðu, ef þeir hefðu verið skoðaðir efnislega, haft í för með sér þveröfuga niðurstöðu. Þeir hefðu ekki leitt til þess að biðflokkurinn stækkaði heldur minnkaði og þeir hefðu ekki leitt til þess að verndarflokkurinn stækkaði heldur yrði óbreyttur. Þess vegna töldu ráðherrarnir sig ekki hafa möguleika á því að taka efnislega afstöðu til þess og þar með var í raun og veru farið á svig við alla þá hugsun sem lá til grundvallar lagabreytingunni sem veitti ráðherrunum aðkomu að málinu. Ekki var tekin afstaða til Hólmsárvirkjunar þó að efnisleg rök væru fyrir því að gera það. Ekki var tekin afstaða til Hagavatnsvirkjunar þó efnisleg rök væru fyrir því. (Forseti hringir.) Þannig var málið sett í þann átakafarveg sem það er í í dag.