141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég held áfram að ræða það sem hv. þm. Birgir Ármannsson fjallaði um áðan, þ.e. um upplýsingagjöf til þingsins. Ég hef satt að segja allnokkrar áhyggjur af því hvernig núverandi ríkisstjórn Íslands umgengst upplýsingaskyldu sína gagnvart þinginu.

Brátt koma til umræðu tillögur í nefndaráliti sem lúta að fjárlögum næsta árs og framgangi mála varðandi byggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss. Áformin sem þar eru kynnt eru gerð á grundvelli minnisblaðs sem lagt var fram í ríkisstjórn 30. nóvember og hefur aldrei verið lagt fram í fjárlaganefndinni. Forsendan fyrir þeirri samstöðu sem náðist um verkefnið í fjárlaganefnd í júní 2010 var hins vegar sú að þar væri um að ræða einkaframkvæmd sem hv. meiri hluti fjárlaganefndar kaus þá að kalla samstarfsframkvæmd til að fela einhverja hluti. Forsendan var sú að öll þessi vinna færi fram á grundvelli þess að allar byggingar og framkvæmdir yrðu boðnar út og að byggt yrði á leiguleiðinni.

Í nefndarálitinu sem búið er að leggja fram liggur fyrir að tvískipta á verkefninu; annars vegar á að fara leiguleið varðandi þrjár byggingar og hins vegar eiga framkvæmdir við stærstu bygginguna að vera eins og um venjulega ríkisframkvæmd væri að ræða með opinbera fjármögnun. Það er brot á því samkomulagi sem ríkti um verkefnið. Það eru allt aðrar forsendur en lagt var upp með í málinu á sínum tíma og því er skýlaus krafa okkar sú að áður en lengra verði haldið komi málið aftur til fjárlaganefndar þar sem hægt verður að leggjast yfir það að nýju.