141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Smám saman er að verða ljóst í hversu miklar ógöngur við erum að rata með mikilvægasta málið sem við fjöllum um á kjörtímabilinu og þá er ég að tala um stjórnarskrá Íslands. Eftir því sem málinu vindur lengra fram verður augljósara að gríðarleg efnisleg vinna blasir við sem illu heilli ekki hefur enn farið fram. Mjög hefur verið vísað til fortíðarinnar í þessum efnum. Sagt hefur verið sem svo að við séum býsna bundin af þeim tillögum sem nú liggja fyrir á þingi vegna þess að tillögurnar eigi rætur sínar að rekja til þjóðarinnar og að þjóðin hafi í raun fært okkur tillögurnar til afgreiðslu með einhverjum hætti á Alþingi.

Þegar þessi mál eru skoðuð betur kemur allt annað í ljós. Í viðtali Morgunblaðsins í morgun við Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, sem hefur kynnt sér þessi mál sérstaklega, varpar hann ljósi á hversu rangt það er þegar því er haldið fram að þessi mál eigi rætur sínar að rekja til þjóðarinnar með einhverjum hætti.

Menn hafa vísað í því sambandi til hins ólöglega kjörna stjórnlagaráðs, nefndar sem í rauninni var skipuð af meiri hluta Alþingis. Prófessorinn segir, með leyfi virðulegs forseta, í viðtalinu í morgun:

„Stjórnlagaráð var algjörlega umboðslaus samkunda. Hún var ekkert lík þjóðinni hvað varðar bakgrunn, menntun eða annað. Kosningin var með þeim hætti að ekki er hægt að segja að byggt hafi verið á neinum málefnagrunni. Þannig að það er ekki samasemmerki milli stjórnlagaráðs og þess að málið hafi verið í höndum þjóðarinnar.“

Það er auðvitað kjarni málsins og er ákaflega mikilvægt að menn átti sig á að Alþingi hefur hér algerlega óbundnar hendur. Komið hafa fram svo alvarlegar ábendingar um margt sem eru veikleikar í tillögunum sem fyrir okkur liggja, að auðvitað er fráleitt að ætla sér að afgreiða málið í heild sinni. Við eigum að gera eins og við sjálfstæðismenn höfum lagt til, að afgreiða þessi mál (Forseti hringir.) þannig að við tökum einstaka þýðingarmikla málaflokka út úr stjórnarskránni og reynum að afgreiða þá. Það gengur ekki að stjórnarskráin sé gerð að einhvers konar minnisvarðapólitík fyrir hæstv. forsætisráðherra.