141. löggjafarþing — 52. fundur,  13. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:07]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Hér er að komast á endasprettinn vinna sem hefur staðið allt frá árinu 1993, sem sagt í yfir 19 ár. Það hefur farið fram gríðarlega mikil, merkileg og góð vinna þar sem sérfræðingar hafa farið yfir álitamálið um hvað á að vernda og hvað á að nýta. Ef maður les niðurstöðu faghópanna virðist hafa verið gríðarlega vel að verki staðið.

Skipt var í eina fjóra hópa þar sem verkefnið var nálgast frá mismunandi sjónarhólum. Í fyrsta lagi voru áhrif á náttúru og menningarminjar skoðuð og í öðru lagi útivist, ferðaþjónusta og hlunnindi. Það er augljóst ef við tökum þá tvo þætti að þarna geta hlutir rekist á. Ef við skoðum til dæmis útivist og ferðaþjónustu er ekki víst að það sé hagkvæmt að fara út í virkjunarkost þótt hann sé hagkvæmur út frá efnahagslegum sjónarmiðum ef það leiðir til að útivist og ferðaþjónusta bera skarðan hlut frá borði í því. Síðan eru það efnahagsleg og félagsleg áhrif virkjananna og að lokum fjórði hópurinn sem eru virkjunarkostir og hagkvæmni þeirra.

Eins og ég sagði áðan er þetta merkileg vinna. Hún á fyrirmynd sína að mér skilst í Noregi þar sem sambærileg áætlun hefur verið gerð í nákvæmlega sama tilgangi og hérna, að reyna að sætta sjónarmið nýtingar annars vegar og friðunar hins vegar. Nú eru allir Íslendingar sammála um að það eru virkjunarkostir sem geta verið mjög efnahagslega hagkvæmir en Íslendingar mundu aldrei samþykkja. Það er sama hvern maður spyr. Mér dettur þá til dæmis í hug Geysissvæðið, Gullfoss eða Dettifoss jafnvel, náttúruundur skal bara segja, sem aldrei má hrófla við á þann hátt að sú náttúrufegurð og þau sérkenni sem fylgja þeim stöðum tapist. Svo eru staðir sem er deilt um þar sem sumir vilja virkja en aðrir ekki.

Til þess að reyna að leiða ágreining um hvað á að virkja og hvað ekki í jörð var farið út í gríðarlega miklu vinnu sem hefur kostað mikla peninga. Ég held að það liggi fyrir að kostnaðurinn við hana séu tæpar 600 millj. og þá er ekki búið að núvirða það eða vísitölubæta þannig að hugsanlega gæti kostnaðurinn af þeirri merku vinnu verið allt að einn milljarður.

Faghóparnir fjórir skiluðu af sér röðun á annars vegar vatnsaflsvirkjunum, eða virkjunarkostum skulum við kalla það, og hins vegar jarðvarmavirkjunarkostum. Röðin segir þá til um hvað menn geta út frá þeim fjórum sjónarhólum sem ég nefndi áðan, þ.e. þeir geta raðað mikilvægi hvers virkjunarkosts fyrir þann sjónarhól sem menn horfa af. Niðurstaðan af því er að það er sjálfsagt að núna sé til röð á virkjunarkostum út frá þeim fjórum kríteríum eða sjónarhólum.

Það sem gerist næst er að faghóparnir skila af sér þeirri skýrslu sem ég hef gert að umtalsefni. Í skýrslunni er ekki lagt til hvað eigi að fara í nýtingu, hvað eigi að fara í vernd og hvað eigi að fara í svokallaðan biðflokk heldur er eingöngu um röðun að ræða.

Eftir að þeirri skýrslu hafði verið skilað fór fram einhvers konar flokkun þar sem stjórn faghópanna var falið í tiltölulega óformlegum kosningum, eftir því sem einn nefndarmaður sem tók þátt í þeirri kosningu segir mér, að raða verkefnunum í nýtingarflokk, biðflokk og verndarflokk. Ég ætla svo sem ekki að gera miklar athugasemdir við hvernig hlutunum var raðað þar en ég held að vel hefði farið á ef þeirri vönduðu vinnu sem hafði farið fram í áratugi á undan hefði verið haldið áfram og það hefði verið gagnsærra og meðvitaðra hvernig hver kostur lenti inn í þessum þremur flokkum. Mér finnst það hefði kannski mátt vanda aðeins betur til á lokasprettinum. Ég ætla samt ekki að gera miklar athugasemdir við röðunin.

Eftir að er búið að flokka listana frá faghópunum í þessa þrjá flokka fer það til ráðherra og við tekur ákaflega sérstakt og einkennilegt ferli þar sem þeim faglegu sjónarmiðum sem höfðu verið undirbyggð áratugina á undan var gefið langt nef og tveir ráðherrar fóru að togast á um hlutina. Það var gert þannig að hverjum þeim með einhverja sanngirni og einhverja virðingu fyrir því gríðarlega mikla verki sem hefur verið unnið, hlýtur að ofbjóða. Þar sem tveir pólitíkusar togast á um hvað eigi að fara í biðflokk og hvað eigi að fara í nýtingarflokk án allra faglegra sjónarmiða og þar sem hlutir eins og hvernig ráðherrunum líður í sínu kjördæmi spilar miklu stærri rullu. Það er alvarlegt. Ekki nóg með að þetta sé vanvirðing við það mikla sáttaferli sem hafði átt sér stað áratugina á undan heldur vantar einfaldlega allar efnislegar forsendur. Það er ekki efnisleg forsenda fyrir röðun að ráðherrar beiti tilfinningu sinni, hvað komi þeim best í kjördæminu og hvað komi þeim verst vegna þess að þessi röðun hefur gríðarlega alvarlegar afleiðingar.

Ég ætla svo sem ekki að fara að deila um einstaka virkjunarkosti og flokkunina sem kom út úr þessari óformlegu skoðanakönnun faghópanna getum við sagt, nema ég ætla að vekja athygli á einum virkjunarkosti sem er Norðlingaölduveita.

Norðlingaölduveita er sögð vera partur af Þjórsárverum og að það væri mikið slys ef farið yrði út í þær veituframkvæmdir. Nú er það svo að Norðlingaölduveita er út frá efnahagslegum mælikvörðum hagkvæmasti kostur sem völ er á. Þetta snýst um að dæla vatni inn í veitur til virkjana sem þegar eru fyrir á svæðinu í Þjórsá og með því bæta nýtingu í þeim virkjunum þannig að hægt sé að ná út allt að 150 megavöttum.

Það voru miklar deilur um Norðlingaölduveitu á síðasta áratug sem raunverulega lauk með því að einn hæstv. ráðherra var fenginn til að stýra hópi sem lenti málinu mjög vel. Menn urðu sammála um að niðurstaðan væri mjög ásættanleg fyrir alla aðila. Niðurstaðan varð sú að það yrði til lón efst í Þjórsá sem yrði síðan dælt úr til að fá fram betri nýtingu í þessum virkjunum og þau spjöll, getum við sagt, sem hefðu orðið á landi við það hefðu orðið algjörlega óveruleg.

Andstæðingar þeirra áforma hafa talað um að svæðið sem átti að fara undir þetta litla lón, ég man ekki alveg hvort það voru svo sem fimm ferkílómetrar en það var óveruleg stærð á því, bentu á að þarna mundu verða mikil náttúruspjöll. Það mundi flæða yfir svokölluð Eyfafen sem eru fúafen sem liggja á þessu svæði. Ég ætla vissulega ekki að gera lítið úr því að það geti verið merkilegt frá einhverjum sjónarhóli en kunnugir segja að þau mundu ekki breytast við þessar veitur af því að svæðið er þeirrar náttúru gætt að efst í Þjórsá, þar sem vatnið safnast saman á aurum og fer að streyma í beinum farvegi, liggur beygja á ánni sem við getum sagt að sé mjótt sund og þar safnast fyrir ís á vetrum og stíflar ána þannig að flæðir inn í Eyfafen. Það gerist oft og iðulega og þessi fen eru einfaldlega vegna þeirra flóða.

Aftur að Þjórsárverum. Þau eru óumdeilt merkilegt náttúrufyrirbæri sem ber með öllum ráðum að varðveita. Sá sem hér stendur mundi aldrei standa að einhverjum framkvæmdum sem spilltu Þjórsárverum. Þau liggja einfaldlega 7 km frá þessu svæði. Að öllu samanteknu er ekki nóg með að hagkvæmt sé að fara út í þessa veitu heldur er það afturkræft ef framtíðarkynslóð mundu vilja endurheimta það sem fer í kaf, þá litlu fleti sem eru eiginlega bara ógrónir og gamlir árfarvegir. Það spillir ekki Þjórsárverum að neinu leyti þannig að ég geri athugasemdir við að sá kostur hafi verið settur í verndarflokk.

Það er annað sem vekur athygli. Þegar tillagan er skoðuð sést að í orkunýtingarflokki eru einungis tveir vatnsaflskostir. (Gripið fram í: Vissirðu það?) Það er stækkun Blöndu sem er óveruleg, hún er innan við 30 megavött, og síðan Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði sem er 35 megavött. Þetta eru ákaflega litlar virkjanir. Aftur á móti er lögð gríðarleg áhersla á jarðhitavirkjanir.

Nú er það svo að ég er þeirrar skoðunar að nýting jarðhita sé ef til vill ekki jafnþróuð aðferð og menn hafa viljað vera láta. Við sjáum það vel á Hengilssvæðinu að það hefur gengið svona upp og ofan að nýta hann. Jafnframt hafa vísindamenn komið fram sem segja að það geti jafnvel verið að líta megi á jarðhita sem óendurnýjanlega auðlind, alla vega til skamms tíma, og þess vegna þurfi að fara mjög varlega í að nýta hann.

Nú er verið að beina öllu inn í jarðhitann. Ég segi því að þessar litlu framkvæmdir, Hvalárvirkjun og Blönduveita, eru óverulegir virkjunarkostir hvað varðar afl. Við vitum ekkert hverjar afleiðingar af því eru. Landsvirkjun hefur til að mynda haldið því fram að það að jarðhita þurfi að byggja upp á mjög löngum tíma til að tryggt sé að sú orka sem á að nýta sé í fyrsta lagi fyrir hendi og að ekki sé farið of gassalega fram gagnvart svæðunum hvað varðar orkuna.

Í reiptogi sínu lögðu ráðherrarnir þessa ofuráherslu á jarðhitann en settu augljósa vatnsaflsvirkjunarkosti í biðflokk. Þegar ég segi augljósa kosti verður mér fyrst hugsað til Þjórsár. Þar eru virkjanir sem eiga að vera algjörlega óumdeildar og það eru Holta- og Hvammsvirkjun. Urriðafossvirkjun sem er stærst af þessum þremur virkjunum í neðri hluta Þjórsár er ef til vill umdeildari og þarfnast einhverra frekari rannsókna við en þær rannsóknir eru í raun og veru í gangi. Þarna eru 270 megavött sem hægt er að virkja. Við sjáum að í samanburði við vatnsaflskostina í orkunýtingarflokki, sem eru tveir og um 30–35 megavött og gefa í heildina eitthvað um 60 megavött, eru það miklir og góðir kostir.

Síðan er það Skrokkölduvirkjun sem var upphaflega sett í nýtingarflokk. Ráðherrarnir toguðu það niður í biðflokk í sinni vinnu. Svo var Hágönguvirkjun 1 og 2 líka tekin úr nýtingu niður í biðflokk.

Mig langar jafnframt til þess að vekja athygli á einum virkjunarkosti sem er í Gjástykki og var settur í verndarflokk. Ég sé engin rök fyrir því að hann eigi heima þar vegna þess að það er örlítið brot af (Forseti hringir.) því merkilega svæði sem er þarna. Það hefur ekki það verndargildi sem verndarflokkur gefur til kynna.

Nú er tíma mínum lokið (Forseti hringir.) þannig að ég verð víst að fá að fara aftur á mælendaskrá.